Vefþjóðviljinn 356. tbl. 17. árg.
Fyrr í haust kom út bókin Norðurslóðasókn – Ísland og tækifærin eftir Heiðar Guðjónsson hagfræðing og fjárfesti. Heiðar hefur um árabil tekið þátt í alþjóðlegum viðskiptum og tekið virkan þátt í umræðu um ýmis mál hér á landi ásamt því að þekkja vel til á Grænlandi. Í bókinni opnar hann lesendum sýn á þau tækifæri sem eru nú þegar til staðar og kunna að verða framtíðinni í nýtingu náttúruauðlinda, flutningastarfsemi og annarri þjónustu norðan Íslands.
Öðrum þræði gætu þessi tækifæri snúist um að nýta fastan kostnað við rekstur Íslands betur en þegar er gert. Ísland er þrátt fyrir allt með mjög sterka innviði á flestum sviðum. En kostnaðurinn við þá dreifist á fáa enn sem komið er. Með því að tengja þessa innviði við vaxandi umsvif á Grænlandi mætti nýta þá betur og létta hluta kostnaðarins af Íslendingum. Og auðvitað hljóta framtakssamir menn hér á landi einnig að líta hin auknu umsvif á norðurslóðum hýru auga sem slík.
Tækifærin gætu til að mynda legið á sjúkrahúsum landsins eins og Heiðar skýrir:
Sagan sýnir að náin samskipti milli Íslands og Grænlands á miðöldum stuðluðu að miklu ríkidæmi. Ísland var ómetanlegur milliliður á leiðinni frá Grænlandi yfir Norður-Atlantshaf til Norðurálfu. Landafræðin hefur ekki breyst en tækifærin og viðfangsefnin innan rammans sem hún mótar eru hins vegar stærri í sniðum en nokkru sinni fyrr. Námuvinnsla, virkjanir , mannvirkjagerð og olíuleit kalla á mikla flutninga, sjóflutninga á tækjum, búnaði og framleiðsluvörum og loftflutninga á vinnuafli. Í þessu tilliti er Ísland jafn ómetanleg miðstöð og áður.
Hagkvæmt er að þróa ýmsa grunnþjónustu á Íslandi á þann veg að hún þjóni Norður-Atlantshafssvæðinu öllu og ekki síst Grænlandi. Nægir þar að benda á heilbrigðisþjónustu. Hún er öflug og á heimsmælikvarða á Ísland, að ná sambærilegum árangri á Grænlandi er ekkert áhlaupaverk og heilbrigðs skynsemi segir að betra sé að flytja sjúkling frá Grænlandi til Íslands en Danmerkur.
Í þessu samhengi skipta flugsamgöngur milli Grænlands og Reykjavíkur og Akureyrar þar sem öflugustu sjúkrahús landsins eru miklu. Flugfélag Íslands flýgur reglulega til Grænlands og getur nánast lent á bílastæðum Landspítalans í Reykjavík.
Meðal þeirra ráða sem Heiðar veitir í bókinni til að bæta stöðu Íslands í viðskiptum við önnur lönd og þar með lífskjör Íslendinga er að tekin verði upp önnur mynt en íslenska ríkiskrónan. Heiðar vill að allir sitji við sama borð þegar gjaldeyrishöftum verði aflétt og fái krónum sínum skipt á sama gengi. Það sé sanngirnismál að almenningur sitji ekki eftir þegar það gerist, en fjármálafyrirtæki og aðrir með greiðan aðgang að gjaldeyrismörkuðum komist út úr krónunni á hagstæðu gengi.
Helst leggur Heiðar til að Íslendingar taki upp Kanadadollar og færir meðal annars fram þau rök að hagsveiflur þessara hrávöruframleiðenda séu í ágætum takti.
Vissulega væri það skref í áttina að Íslendingar notuðu gjaldmiðil, eins og Kanadadal, sem skipta má í aðra gjaldmiðla. En það leysir ekki stóra vandamálið sem er að ríkið gefi út gjaldmiðla og stjórnmálamenn stýri framboði þeirra og verðlaginu.
Heiðar segir „skemmtilega“ sögu af tilburðum Paypal til að koma á legg gjaldmiðli sem lyti ekki dutlungum stjórnmálamanna:
Paypal, greiðslumiðlun á netinu, hafði áform um að nýta rafrænan gjaldmiðil sinn, sem var að mestu notaður á Ebay, í almennum viðskiptum. Um leið og áformin urðu opinber og Paypal ætlaði að leyfa amerískum neytendum að nota gjaldmiðilinn, GLD, hvarvetna í gegnum greiðslukort komu fulltrúar hins opinbera í heimsókn og höfðu í frammi hótanir. Alríkislögreglan og Seðlabanki Bandaríkjanna sögðu einkarétt á útgáfu peninga í Bandaríkjunum og hann væri hjá ríkinu. Þá var því haldið fram að GLD væri nýttur í ólöglegum viðskiptum, til kaupa á klámi á netinu, til veðmála og viðskipta með þýfi. Ætla mátti að að bandarísk stjórnvöld teldu GLD ógna dollar sem vinsælasta gjaldmiðli í heimi glæpamanna. Paypal-menn sáu sitt óvænna, hættu við allar áætlanir um útgáfu myntar og seldu fyrirtækið árið 2001 til Ebay.
Það er sjálfu sér áminning um að Íslendingar búi í fámenni við háan fastan kostnað per haus að bækur á borð við Norðurslóðasókn, þar sem menn horfa fram á veg, skuli aðeins koma út á nokkurra ára fresti.
Man einhver hvenær svona bók kom út síðast?
Norðurslóðasókn má panta hjá útgefanda.