Vefþjóðviljinn 355. tbl. 17. árg.

Hvers vegna styrkir Reykjavíkurborg Bíó Paradís í samkeppni við önnur kvikmyndahús, myndabandaleigur og veitingahús?
Hvers vegna styrkir Reykjavíkurborg Bíó Paradís í samkeppni við önnur kvikmyndahús, myndabandaleigur og veitingahús?

Hvers vegna rekur Reykjavíkurborg kvikmyndahús?

Raunar rekur borgin ekki sitt eigið kvikmyndahús en borgaryfirvöld nota hins vegar borgarsjóð til þess að styrkja eitt þeirra kvikmyndahúsa sem rekið er í borginni, „Bíó Paradís“.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að borgin myndi ekki styrkja alþjóðlegu kvikmyndahátíðina „Riff“ en hefði ákveðið að styrkja kvikmyndahátíð á vegum Bíó Paradísar um átta milljónir króna. Í samtali við blaðið segir Hrönn Marinósdóttir stjórnandi Riff að „alveg frá því að Besti flokkurinn tók við borginni hefur hann haft sérstakan áhuga á að halda lífinu í Bíó Paradís.“

Útsvar Reykvíkinga er mjög hátt og dregst af launum allra, hátt sem lágt launaðra. Borgaryfirvöld kvarta yfir því að fá ekki nægar tekjur. En þau telja sig samt hafa átta milljónir króna til þess að styrkja kvikmyndahátíð á vegum einkarekins kvikmyndahúss.

Einhverjum finnst þetta eflaust mjög jákvætt. Það séu svo mikilvægar myndir sýndar í þessu bíói. Það geti ekki staðið undir sér án opinberra styrkja. En hvers vegna eiga sveitarfélög að hafa skoðun á því hvaða kvikmyndir séu mikilvægar og hvaða myndir ekki? Er það hlutverk sveitarfélaga?

Bíó Paradís er í samkeppni við önnur fyrirtæki, bæði önnur kvikmyndahús og aðra afþreyingu. Þær fáu myndbandaleigur sem enn þrauka, og sumar reyna að skapa sér grundvöll með því að bjóða upp á listrænar myndir sem horfa til fámennari hópa, keppa líka við Bíó Paradís. Ekki færa borgarfulltrúar þeim milljóna styrki.
Stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar Riff segir að undir stjórn Besta flokksins hafi borgin „sérstakan áhuga á að halda lífinu í Bíó Paradís“.

Hvað er til í þeirri fullyrðingu? Hversu mikið hefur borgin styrkt þetta kvikmyndahús á síðustu árum? Hefur minnihlutinn gert athugasemdir við það?