Vefþjóðviljinn 350. tbl. 17. árg.
Um helgina sagði Ríkisútvarpið frétt sem ástæða er til að vekja athygli á.
Um hundrað manns komu saman á Austurvelli klukkan fimm í dag til að mótmæla niðurskurði á Ríkisútvarpinu og sýna í verki að ríkisútvarp í almannaeign sé skýr vilji fólksins í landinu.
Flutt var tónlist og fjöldi ræðumanna steig á svið, þar á meðal Örn Bárður Jónsson sóknarprestur á Seltjarnarnesi, sem flutti hugvekju fyrir hönd hlustenda Ríkisútvarpsins, og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur sem flutti ljóð.
Í tilkynningu var fólk hvatt til að mæta á Austurvöll og sýna að því væri ekki sama um niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu, þögn væri sama og samþykki. Með því að tala saman og njóta nærveru væri lýðræðið styrkt og sent skýrt merki út í samfélagið að það væri vilji fólksins að almannaútvarp í ríkiseign væri starfrækt á Íslandi.
Fundurinn var boðaður til að sýna að almenningi væri ekki sama um niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu og lögð mikil áhersla á að þögn væri það sama og samþykki við niðurskurðinum.
Að sögn Ríkisútvarpsins sjálfs voru „um hundrað manns“ á fundinum. Ekki kom fram hvort þar er meðtalinn „fjöldi ræðumanna“ sem hélt þar snjallar ræður fyrir hönd hlustenda.