Vefþjóðviljinn 344. tbl. 17. árg.
Við þingkosningar síðasta vor sagði Vefþjóðviljinn frá heiðurshjónunum á myndinni hér að ofan. Þau eiga tugi milljóna í einbýlishúsi sínu og skuldlausan jeppa, til að ergja vinstri græna, á hlaðinu. Með neyðarlögunum haustið 2008 voru 100 milljónirnar þeirra á gjaldeyrisreikningunum (sem voru 50 milljónir skömmu áður) tryggðar í bak og fyrir. Þau hafa einnig mjög góðar tekjur.
Undanfarna daga hefur hver sjálfstæðismaðurinn etið upp eftir öðrum að honum sé svo létt að ekki hafi verið fallist á allra gölnustu kröfur Framsóknarflokksins um skuldaniðurfellingar. „Þetta er miklu skárra en búast mátti við.“
Samkvæmt upphaflegu tillögum Framsóknarflokksins um 20% „leiðréttingu“ á bágum hag hjónanna hefðu þau fengið 5 milljóna króna velferðartékka. Eftir aðlögunarviðræður Sjálfstæðisflokks við kosningaloforð Framsóknarflokksins er niðurstaðan sú að velferðartékkinn verður 3,3 milljónir króna og svo bætast við skattaívilnanir upp á um 700 þúsund með skattfrelsi á notkun séreignasparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána. Félagslega aðstoðin við fullfrísku auðmennina verður því aðeins 4 milljónir í stað 5.
Ríkt fólk fær þannig milljónir út ríkissjóði, sem er ekki aðeins galtómur heldur skuldar stórfé um allar jarðir og innheimtir hærri skatta en nokkru sinni í sögu landsins.
Hvílíkur léttir.