Helgarsprokið 8. desember 2013

Vefþjóðviljinn 342. tbl. 17. árg.

Var það Íslandi til góðs að lagasafnið þykknaði um helming á árunum 1997 - 2008? Og hve stóran þátt í þessu áttu sífelldar og gagnrýnislausar innleiðingar á tilskipunum ESB?
Var það Íslandi til góðs að lagasafnið þykknaði um helming á árunum 1997 – 2008? Og hve stóran þátt í þessu áttu sífelldar og gagnrýnislausar innleiðingar á tilskipunum ESB?

Einn galla íslenskra embættismanna er hversu djúpt þeir beygja sig og bugta fyrir embættismönnum Evrópusambandsins. Íslenskir embættismenn þrýsta samfellt á ráðherra og þingmenn að innleiða sem fyrst nýjustu tilskipanir evrópsku embættismannanna. Á undirbúningsstiginu dettur íslensku embættismönnunum næstum aldrei í hug að mótmæla þeim tilskipunum sem unnið er að. Þeim dettur ekki í hug að segja Evrópusambandinu að þessar nýju reglur verði ekki leiddar í lög á Íslandi.

Ein ástæðan er auðvitað sú að íslenskir ráðherrar segja aldrei neitt slíkt við embættismenn sína. Ráðherrarnir segja embættismönnunum ekki heldur að við innleiðingar erlendra tilskipana eigi að gæta þess að ganga aldrei lengra en nauðsyn krefur á hverjum tíma.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur meiri skilning á þessum málum en margir aðrir þingmenn og í nýlegum viðtalsþætti sagði hann réttilega að Íslendingar hefðu á undanförnum árum verið kaþólskari en páfinn í innleiðingunni. Vonandi mun hann taka forystu í þessu máli og vekja fagráðherra sína.

Það er mjög brýnt að ríkisstjórnin marki strax þá almennu stefnu, sem embættismenn byrji að vinna eftir, að takmarka innleiðingar erlendra tilskipana eins og kostur er. Að íslenskir embættismenn fari að líta á sig sem varðmenn Íslands en telji sig ekki hafa það hlutverk að ýta á eftir eigin stjórnvöldum að lögleiða dynti erlendra embættismanna.

Það er auðvitað engin þörf á að ganga í Evrópusambandið til þess að verja hagsmuni Íslands að þessu leyti. Við slíka inngöngu myndu völd landsins yfir eigin málum þvert á móti minnka mjög verulega, en þau „áhrif“ sem á móti kæmu skiptu engu.

Kaupmaðurinn í verslunni Kosti, Jón Gerald Sullenberger, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og fjallar þar um bandaríska kryddblöndu sem lengi var vinsæl á Íslandi, Season All.

Nú má ekki flytja hana til landsins lengur, vegna tilskipana Evrópusambandsins. Skýringin á því, samkvæmt Jóni, er að í kryddblöndunni er náttúrulegt litarefni, E 160, sem unnið er úr Annatto-fræjum. Á sama tíma er heimilt að nota þetta sama efni í matvælaframleiðslu og gefur það maribo-ostinum appelsínugula litinn og frá Evrópusambandslöndunum er flutt inn brauðrasp, sem er gult vegna þessa efnis.

Jón segir í grein sinni:

Það er óþolandi að stjórnvaldið í Brussel geti ákveðið hvaða krydd við notum á lambakjötið. Íslendingar vilja hafa val og þeir sakna þess að geta ekki keypt kryddið sem þeir hafa notað árum saman. Og nú spyr ég sérfræðinga [Matvælastofnunar], skýtur það ekki skökku við að Íslendingum sé bannað að krydda kótelettuna með Season All af því að kryddblandan inniheldur Annatto en það sé í lagi að velta henni upp úr brauðraspi sem inniheldur þetta sama efni?