Laugardagur 7. desember 2013

Vefþjóðviljinn 341. tbl. 17. árg.

Stjórnvöld senda nú þau skilaboð að fjárfesting í steinsteypu sé mikilvægari en fjárfesting í menntun.
Stjórnvöld senda nú þau skilaboð að fjárfesting í steinsteypu sé mikilvægari en fjárfesting í menntun.

Einhver samtök háskólamanna hafa nú óskað eftir því að verðtryggð námslán verði „leiðrétt“ á sama hátt og stendur til að „leiðrétta“ verðtryggð íbúðalán fólks, sem enginn hefur þó getað bent á að séu rangt reiknuð og þurfi leiðréttingar við. Samfylkingin var fljót að bera þessa ósk þrýstihópsins upp við menntamálaráðherra í þinginu. Menntamálaráðherra svaraði því til að vextir námslána væru þegar niðurgreiddir af hinu opinbera og því væri ekki um sambærileg mál að ræða.

Kannski hefur menntamálaráðherra ekki heyrt um vaxtabætur sem sumt fólk fær árlega, jafnvel nokkur hundruð þúsund krónur, skattfrjálst frá hinu opinbera vegna húsnæðislána. Sem er skiljanlegt því undanfarin misseri hefur umræðan verið þannig að ríkið hafi ekkert gert fyrir skuldara þótt tugir milljarða hafi verið teknir að skattgreiðendum til að færa skuldurum sem slíkar vaxtabætur. Slík er frekjan og vanþakklætið að almennu vaxtabæturnar eru aldrei taldar með sem „aðgerðir í þágu heimilanna.“ Þær eru bara hluti að náttúrulögmálinu um að skattgreiðendur séu féflettir fyrir skuldara.

Það er bara ekkert fjarstæðukenndara að „leiðrétta“ námslán en húsnæðislán. Bæði lánin eru verðtryggð og urðu fyrir sama „forsendubrestinum“ en helsta forsenda lánanna er að færi verðbólga af stað myndu lánveitendur ekki þurfa að horfa á fé sitt brenna upp.

En einfaldasta leiðin til gæta jafnræðis milli námslána, húsnæðislána og allra annarra verðtryggðra lána er að „leiðrétta“ ekkert þeirra á kostnað skattgreiðenda enda engin þeirra verið rangt reiknuð.