Miðvikudagur 4. desember 2013

Vefþjóðviljinn 338. tbl. 17. árg.

Þau Ögmundur Jónasson og Sigríður Ásthildur Andersen skiptast á um að skrifa vikulega þjóðmálapistla í sunnudagsblað Morgunblaðsins. Um síðustu helgi skrifaði Ögmundur um lýðræði á tímamótum og lagði út frá ráðstefnu sem hann sat nýlega með 2000 öðrum í Strasborg um það efni.

Samkvæmt Ögmundi talaði þar portúgalskur sósíalisti, Antonio Costa, borgarstjóri í Lissabon. Costa þessi hefði talað fyrir þingræði en varaði við beinu lýðræði. Það hefði hann meðal annars gert með þeim rökum að beint lýðræði myndi færa mönnum lægri skatta, „og velferðarkerfið þar með eyðilagt“, útlendingahatur og dauðarefsingar. Ögmundur segist hafa sagt á ráðstefnunni að þessar afleiðingar væru ekki sennilegar, en jafnvel þótt svo færi, þá yrði svo að vera því almenningur yrði að fá að ráða.

Antonio Costa vildi, samkvæmt Ögmundi, „vernda samfélagið gegn þeim hættum sem staðja að því í beinu lýðræði“, en Ögmundur virðist hafa talað fyrir því að láta bara kjósa um málin og taka svo niðurstöðunni.
Að vísu mun þetta vera sami Ögmundur og greiddi atkvæði gegn því að Icesave-lög vinstristjórnarinnar yrðu borin undir kjósendur, en horfum fram hjá því að sinni. Um „beina lýðræðið“ er nefnilega ýmislegt að segja og verður ekki allt sagt í dag. Og Ögmundur stóð sig betur en flestir félaga hans í Icesave-málinu.

Sumir þeir sem tala fyrir beinu lýðræði beita stundum því áróðursbragði að saka andmælendur sína um að treysta ekki venjulegum kjósendum til að setja sig inn í mál og taka ákvörðun. Nú sé komið net og almenn menntun og því geti hver og einn tekið ákvörðun í öllum málum, og með nýrri tækni sé hægt að kjósa næstum hvar og hvenær sem er.
Þessi áróðursbrögð eru ósanngjörn og Ögmundur féll ekki í þá gryfju að nota þau í grein sinni. En þau heyrast oft þegar talað er fyrir „beinu lýðræði“.

Fulltrúalýðræði hefur ýmsa kosti umfram „beina lýðræðið“. Það eru ekki allir með stjórnmál á heilanum. Það eru ekki allir sitjandi við tölvuna daginn út og inn, skrifandi athugasemdir á umræðuvefi gegnum falsaða feisbúkk-reikninga. Fjöldi fólks vill eyða frítíma sínum öðruvísi en setja sig inn í hefðbundnar stjórnmálaþrætur. Ekki af því að þetta fólk geti það ekki, eða treysti sér ekki til þess. Margir hafa einfaldlega annað við sinn litla frítíma að gera. Mjög margir vilja fá að velja sér fulltrúa til að annast þau mál fyrir sig, byggt á einhverri þeirri meginstefnu sem skipar venjulegu fólki í stjórnmálaflokka.

Stjórnmálaflokkar eru ekki slæmir í sjálfum sér. Og þeir íslensku ekki verri en annars staðar. Stjórnmálaflokkar eru einfaldlega misgóðir. Það er engin ástæða til að hafna þeim öllum, þótt mönnum finnist einhver ekki standa undir væntingum.

Stjórnmálaflokkar, þar sem forystumenn setja fram skýra stjórnmálastefnu sem er byggð á lífssýn sem er sjálfri sér samkvæm, eru ákaflega mikilvægir í lýðræðisríki. Enda er það yfirleitt fyrsta verk erlendra einræðisherra að banna stjórnmálaflokka. Alræðissinnar tala manna mest um lýðræði, en framkvæma lítið af því. Nema reyndar Assad í Sýrlandi. Hann hélt einmitt þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá á dögunum og taldi hana hafa heppnast mjög vel.