Vefþjóðviljinn 331. tbl. 17. árg.
Þeir sem vilja mynda sér skyndiafstöðu til tillagna sem þeir hafa ekki kynnt sér svo neinu nemi, geta notað nokkur atriði sem gefa yfirleitt skýra vísbendingu um gagnsemi tillagnanna, þótt þær séu auðvitað ekki vísindalegar.
Þeir sem mæla með tillögunni, hversu fljótir eru þeir að segja að „mikil vinna“ hafi verið lögð í „undirbúning“ tillögunnar?
Því fyrr sem komið er að þeirri röksemd með tillögunni, því ólíklegra er að fyrir henni séu í raun góð rök.
Ef ákveðið er að taka eitthvert málefni til endurskoðunar er mikil hætta á að sérstakir áhugamenn um einhvern anga málefnisins taki endurskoðunarvinnuna yfir. Þeir sjá til þess að um málið séu haldnir margir fundir, þar sem mikið og ómarkvisst er talað. Þeir sjálfir mæta á fundina. Þeir sem minni áhuga hafa, gera það auðvitað mun síður. Þeir síðarnefndu treysta því yfirleitt flestir að einhverjir aðrir komi vitinu fyrir ákafamennina svo úr verði nothæfar tillögur. Sjálfir hafa þeir annað við tíma sinn að gera.
Yfirleitt fá allir helstu áhugamennirnir hugðarefni sín inn í endanlega tillögu. Þegar tillagan er svo kynnt opinberlega og aðrir sjá loksins fullmótaðar tillögur, er gagnrýnendum svarað því til að þeir hafi haft fjölmörg tækifæri til að gera athugasemdir. Fjöldi fólks hafi lagt mikið á sig við að móta tillögurnar, þessar athugasemdir hefðu verið góðar á fyrri stigum, en nú sé umræðan komin lengra. Og svo framvegis. Mönnum tekst að fá einhverju smáræði hnikað til og finnst þeir hafa unnið varnarsigur.
En auðvitað á að meta tillögur eftir raunverulegum kostum þeirra og göllum. En ekki eftir því hversu áhugamenn um þær eyddu miklum tíma í að ræða þær hver við annan.
Borgarfulltrúar í Reykjavík voru að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir borgina. Ef marka má fréttir á þar að slá föstum ýmsum persónulegum hugðarefnum áköfustu borgarfulltrúa allra flokka. Sá sem fékk flest atkvæði í fyrsta sæti í nýlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins segir nú aðspurður að hann hyggist ekki beita sér fyrir því að nýja aðalskipulagið verði fellt úr gildi í heild sinni.
Mikill tími og vinna hefði farið í vinnslu þess.