Vefþjóðviljinn 328. tbl. 17. árg.
Enn er rætt um hlut kvenna í efstu sætum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir að 5.000 kjósendur röðuðu þremur körlum í efstu sætin og konum í sætin þrjú þar á eftir, líkt og þessir 5.000 hafi kvöldið fyrir prófkjör hist í reykfylltu bakherbergi til að plotta gegn konum.
Karlarnir þrír eru eldri en konurnar og hafa verið drjúgan tíma í borgarstjórn eða á öðrum sveitarstjórnarvettvangi. Tvær kvennanna höfðu hins vegar nýverið sest í borgarstjórn fyrir flokkinn og sú þriðja verið erlendis hluta kjörtímabilsins. Það hefði því komið nokkuð á óvart ef konurnar hefðu skotist upp fyrir karlana. Það er jafnframt hugsanlegt að ef þessir þrír kvenframbjóðendur hefðu óskað eftir stuðningi í önnur sæti en þeir gerðu hefði röðin orðið önnur.
Síðast fór talsverð umræða um hlut kvenna í flokknum fram eftir að Ólöf Nordal ákvað að gefa ekki kost á sér áfram sem varaformaður flokksins síðastliðinn vetur. Ólöf varð þingmaður flokksins í fyrstu atrennu eftir prófkjör fyrir þingkosningar árið 2007 og síðan varaformaður eftir aðeins þrjú ár sem kjörinn fulltrúi flokksins. Það er óvenju skjótur frami innan Sjálfstæðisflokksins hvort sem litið er til karla eða kvenna.
Við embætti varaformanns flokksins tók Hanna Birna Kristjánsdóttir sem fór beint í borgarstjórn Reykjavíkur í fyrstu tilraun eftir að hafa verið sett af kjörnefnd á lista flokksins, varð síðar borgarstjóri og er nú ráðherra flokksins eftir að hafa hlotið yfirburðastuðning í fyrsta þingprófkjöri sínu fyrir kosningar síðasta vetur.
Með Hönnu Birnu í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn situr Ragnheiður Elín Árnadóttir sem fór rakleitt inn á þing eftir að hún gaf kost á sér í prófkjöri fyrir kosningar 2007 og er nú nokkrum árum síðar orðin ráðherra. Með Ragnheiði Elínu kom nafna hennar Ríkharðsdóttir inn á þing, sömuleiðis í fyrstu tilraun eftir prófkjör og er nú formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Það er því ekki mjög sannfærandi að konum sé hvað eftir annað hafnað í Sjálfstæðisflokknum eins og haldið er fram.
Það væri enda í algeru ósamræmi við nýlega rannsókn á prófkjörum á Íslandi sem virðist gefa til kynna að ungir og kvenkyns frambjóðendur eigi síst undir högg að sækja.