Vefþjóðviljinn 322. tbl. 17. árg.
Á Vísi í dag eru birtar myndir af helsta knattspyrnuvelli Króata í höfuðborginni Zagreb. Völlurinn er heimavöllur hins fornfræga liðs Dinamo Zagreb sem spilað hefur í svonefndri meistaradeild Evrópu undanfarin ár. Það kom Vefþjóðviljanum spánskt fyrir sjónir að áhorfendastúkur eru ekki yfirbyggðar. Er það ekki krafa frá FIFA eða UEFA eða eitthvað að áhorfendabekkir séu yfirbyggðir?
Undanfarin ár hefur KSÍ að minnsta kosti ólmast í íslenskum íþróttafélögum að steypa sér nú endilega í tugmilljóna útgjöld með því að reisa yfirbyggðar stúkur. Síðasta vor var til að mynda mikill þrýstingur á Fylki í Árbænum að koma nú þaki yfir áhorfendur því undanþága frá kröfum KSÍ um stúku væri að renna út. Sjálft „leyfiskerfi KSÍ“ var farið að pípa á Árbæinga og þeir gerðu dauðaleit að þeim 160 milljónum sem varanleg regnhlíf kostar.
Og hvar leita svo íþróttafélögin eftir svona fjárhæðum? Nema hvar? Hjá skattgreiðendum. Í ræðu á ársþingi KSÍ í febrúar sagði Geir Þorsteinsson formaður sambandsins:
En við verðum í sameiningu að halda baráttunni áfram fyrir betri og aukinni aðstöðu og gera þær kröfur til sveitarfélaga að lokið sé við framkvæmdir, t. d. með því að byggja þök á nýjar stúkur. Þá er mikilvægt að huga sífellt að betri aðbúnaði leikmanna, s. s. búningsklefum og annarri aðstöðu.
Hvers vegna þykist KSÍ geta gert kröfur til skattpeninga almennings? Og hvers vegna halda sveitarstjórnarmenn að þeir þurfi að taka mark á þeim?
Þeir sem horfa á Dynamo Zagreb spila við Real Madrid eða króatíska landsliðið kljást við það íslenska gera það undir berum himni. Hví mega Árbæingar það ekki líka?