Vefþjóðviljinn 320. tbl. 17. árg.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík halda í dag prófkjör vegna borgarstjórnarkosninga næsta vor. Þar er mannval að vanda ef marka má mannkostalýsingar á frambjóðendum á Facebook og víðar.
Vefþjóðviljinn vill kannski vekja athygli á tveimur málum í þessu samhengi, enda bæði margrædd á þessum síðum.
Annars vegar byggingu Hörpunnar sem er stærsti skellurinn sem skattgreiðendur í Reykjavík hafa fengið frá borgarfulltrúum vitandi vits. Aðeins einn borgarfulltrúi greiddi atkvæði gegn þessari risaskuldbindingu sem er enn að vinda upp á sig.
Hins vegar má nefna síðasta Icesave samninginn sem forysta Sjálfstæðisflokksins studdi þvert gegn skýrri landsfundarályktun og hlaut að launum rassskellingu í síðustu þingkosningum. Aðeins einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagðist opinberlega gegn þeirri ánauð.
Svo vill til og er raunar ekki tilviljun að það var sami borgarfulltrúinn sem stóð vaktina fyrir skattgreiðendur í báðum málum. Kjartan Magnússon.