Vefþjóðviljinn 314. tbl. 17. árg.
Frá og með næstu áramótun hverfa Íslendingar rúm hundrað ár aftur í tímann í samgöngumálum. Þá munu helstu fararskjótar þeirra að nýju sækja orkuna út í haga.
Steingrímur J. Sigfússon lét nefnilega leiða það í lög fyrr á árinu að ákveðinn hluti eldsneytis á bíla hér á landi verði frá næstu áramótum að vera „endurnýjanlegur“. Það þýðir að bensínstöðvar eiga að bjóða bensín og Dieselolíu sem etanóli og jurtaolíum hefur verið blandað saman við. Bæði etanólið og jurtaolíurnar eru framleidd úr maís og öðru grænmeti.
Sem kunnugt er mun það kosta Íslendinga aukin gjaldeyrisútgjöld að kaupa þetta svonefnda lífeldsneyti til landsins og eldsneytiseyðsla bíla mun aukast.
En á þessu framtaki Steingríms er önnur og öllu nöturlegri hlið en aukið álag á skuldsettan gjaldeyrisforða Íslendinga og tíðari ferðir þeirra á bensínstöðvar.
Þannig er í þessum heimi að mörg hundruð milljónir manna búa við sult. Það er auðvitað af mörgum ástæðum, allt frá stríðátökum og sósíalisma til uppskerubrests af náttúrulegum orsökum.
Veltir enginn vinstrigrænn því fyrir sér hvort það sé skynsamleg ráðstöfun á fæðu að ráðstafa henni á einkabílinn? Er enginn efi um að þetta sé gæfulegt á meðan fólk svelti í veröldinni?
Líklega ekki, enda er það náttúran sem á að njóta vafans en ekki svangar manneskjur, í huga vinstri grænna.
En þá má kannski spyrja hvort það sé ekkert vafamál fyrir náttúruna að taka gríðarleg landflæmi undir ræktun á eldsneyti á bílana okkar? Á þessu landi gæti vaxið skógur sem bindur kolefni um aldir og heldur því áfram af hann er höggvinn í timbur í hús, húsgögn og innréttingar. Þessi eldsneytisræktun er líka vatnsfrek og þarf mikla orku, sumir hafa jafnvel haldið því fram að orkan sem kemur á endanum út úr þessari framleiðslu sé álíka mikil og þarf til að halda henni gangandi.
Að auki þurfa svo skattgreiðendur að koma með sitt framlag, beina ríkisstyrki eða skattfríðindi, en það af sjálfsagt kostur í huga vinstri grænna.
En vinstrigrænir þurfa ekki að svara þessum spurningum lengur. Þeir eru ekki lengur í ríkisstjórn heldur er komið fólk úr öðrum flokkum sem sér samviskusamlega um að hrinda stefnu þeirra í framkvæmd.