Föstudagur 8. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 312. tbl. 17. árg.

Vinstristjórnin náði upphaflega völdum án nýrra kosninga, eftir óeirðir sem beint var að alþingi og ýmsum opinberum stofnunum. Þegar völdin voru fengin fór ekki milli mála að margir stjórnarliðarnir töldu sig hafa fengið allsherjarbyltingarumboð. Nú hafa tveir ráðherrar þessarar færsælu stjórnar gefið út bók um þennan glæsilega tíma. Báðir efndu til hófs til að fagna útgáfunni og völdu báðir til þess 7. nóvember.

Líklega gera fáir sér grein fyrir hvílíkt þrekvirki Steingrímur J. Sigfússon hefur unnið með bók sinni. Enginn maður í heiminum hefur lagt eins mikið á sig við að segja sögu sína í einmitt þessari bók. Á ritunartíma bókarinnar hefur Steingrímur hvorki matast né sofið og með herkjum að hann hafi haft tíma til klæða sig, slíkt hefur álagið verið. Vinir og stuðningsmenn hafa skipað nefndir og starfshópa til að tryggja honum brýnustu nauðþurftir en það hefur varla dugað til. Álagið var ofurmannlegt fyrir Steingrím sem ekki bugaðist frekar en á þeim árum þegar hann bar landið á herðum sér út úr erfiðleikum. Með bókinni hefur Steingrímur í raun bjargað íslenskum bókmenntum og Björn Valur telur að aldrei hafi verið skrifuð betri bók. Hún muni síðar verða talin best norrænna bóka.