Vefþjóðviljinn 307. tbl. 17. árg.
Jafnréttisþing var haldið á kostnað skattgreiðenda á föstudaginn. Ríkissjóður á svo mikla peninga að engin ástæða þótti vera til að sleppa svo mikilvægu þingi.
Og auðvitað er verk að vinna í jafnréttismálum. Mikilvægt er að skynsamir stjórnmálamenn láti þau til sín taka af krafti.
Eitt það mikilvægasta sem þarf að gera í jafnréttismálum, er að tryggja að lög líti á hvern mann, karl og konu, sem einstakling en ekki bara sem réttlausan hluta af hópnum Karlar eða Konur. Einstaklingurinn, karl sem kona, á ekki að gjalda fyrir það hjá hinu opinbera hvernig aðrir af sama kyni kunna að hafa valið sér starf. Einstaklingur sem sækir um starf hjá hinu opinbera á ekki að verða fyrir því, að þegar ráðið er í starfið sé hugsað um það í hvaða kynjahlutföllum fyrri kynslóðir hafa sinnt því.
Vefþjóðviljinn hefur áður tekið dæmi af skólasystkinunum Jóni og Guðrúnu sem útskrifast á sama tíma úr hjúkrunarfræðinni með sambærilegum árangri. Svo er auglýst laust starf á Landspítalanum og bæði sækja um. Það er ekkert réttlæti í því að möguleikar Jóns á starfinu verði meiri en Guðrúnar, vegna þess að aðrar konur hafa sótt miklu meira í hjúkrunina en aðrir karlar.
Þeir sem tala fyrir því að Jón fái forskot á Guðrúnu, vegna þess að fleiri konur en karlar hafi áður sótt í starfið, þeir horfa á hvorugt þeirra sem einstakling. Þeir halda að í landinu séu í raun aðeins tveir aðilar, Allir karlar og Allar konur. Svo byrja þeir að telja. Þeir fá út niðurstöðu og svo ætla þeir að byrja „að jafna hlutföllin“. Þeir sjá bara hópana sem þeir hafa á heilanum, en hvorki Jón né Guðrúnu.
Þeir sem reikna kynjahlutföll innan starfstétta, og finnst koma til greina að setja reglur til að breyta þeim, þeir eru í raun búnir að viðurkenna að þeir sjái bara tvo andlitslausa hópa, en enga einstaklinga.
Skylt þessu er sífellt tal um „kynbundinn launamun“. Raunar er það svo að tölfræðigögnin sem menn telja sig byggja á, eru alls ekki eins áreiðanleg og skýr og þeir halda, en það er ekki aðalatriðið. Margt fleira er rangt við allt talið um „kynbundinn launamun“. Þar á meðal er tilhneigingin til að sjá bara tvo hópa, Alla karla og Allar konur, en enga einstaklinga.
Í einu fyrirtæki vinna tíu manns „sama starfið“. Þeir eru „sambærilegir“ starfsmenn, eins líklegt og það er nú. Þá ætti allt þetta fólk að fá sömu laun, samkvæmt réttlætiskenningum sem nú eru vinsælar.
Þetta eru fimm karlar og fimm konur. Þau hafa náð mishagstæðum samningum við vinnuveitandann. Launahæstur er Gunnar, hann fær milljón á mánuði. Næstur er Héðinn með 900.000 þúsund. Bergþóra fær 850.000 krónur. Allir hinir, Kári, Skarphéðinn, Hallgerður, Helga, Sæunn og Þórkatla, fá 500.000 krónur nema Njáll sem fær 450.000 krónur enda bað hann ekki um meira í síðasta launaviðtali. Sagðist vera hæstánægður með sitt. Heildarlaun karlanna fimm eru 3.350.000 krónur. Heildarlaun kvennanna fimm eru 2.850.000 krónur.
Þeir sem sjá bara hópana tvo, þeir eru fljótir að sjá að „meðallaun karla“ eru 670.000 krónur en „meðallaun kvenna“ eru 570.000 krónur. Þarna er greinilega „kynbundinn launamunur“. Ríkisútvarpið slær þessum tölum upp og þær eru ræddar á fjölmörgum ráðstefnum. Á kaffistofunni hvessa allar konurnar augun á Njál. Óþolandi þetta samsæri karlanna um að halda konum niðri.
Menn geta auðvitað farið og reiknað meðaltalslaun Allra kvenna í einhverri starfstétt og borið saman við meðaltalslaun Allra karla, en það eru engar líkur á að þeir fái nokkra niðurstöðu sem máli skiptir. Það er nefnilega ekki þannig í raunveruleikanum að á vinnumarkaði séu bara tveir hópar. Á vinnumarkaði eru þúsundir einstaklinga, karlar og konur, og engir tveir þeirra eru eins.