Vefþjóðviljinn 303. tbl. 17. árg.
Stjórnmálamenn og enn frekar embættismenn halda áfram að taka frá fólki ábyrgðina á eigin lífi. Á fleiri og fleiri sviðum tekinn af fólki rétturinn til að ráða sínum málum sjálft og á eigin ábyrgð. Og í hvert sinn minnkar einstaklingurinn en ríkið, sem hugsar fyrir hann og gætir hans, stækkar.
Á föstudaginn taka gildi ný neytendalög, sem vinstristjórnin fékk samþykkt og núverandi embættismannastjórn haggar ekki, frekar en öðru sem vinstristjórnin gerði.
Samkvæmt nýju lögunum mega menn ekki taka lán nema fá frá lánveitandanum alls kyns upplýsingar og útreikninga, sem ríkið telur að menn verði að hafa í huga þegar þeir taka lán. Auðvitað kemur ekki til greina í huga embættismanna að einstaklingurinn fái að meta það sjálfur hvaða upplýsingar hann þarf.
Eitt barnfóstruákvæði laganna hljómar svo um að gera að skyldu að lántakinn gangist undir „greiðslumat“, ef hann ætlar að taka meira en tveggja milljóna króna lán. Menn geta ekki lengur tekið einfalt bílalán án þess að gangast undir fjárhagslega smásjárrannsókn sem felur auðvitað í sér að óviðkomandi starfsmenn fjármögnunarleigunnar fá allar upplýsingar um fjárhagsstöðu þeirra.
Ekkert slíkt skiptir embættismenn máli. Fyrir þeim eru borgararnir lítils megnugir og munu fara sér að voða ef þeir eru ekki undir stjórn faglegra embættismanna. Það kemur ekki til greina að láta fyrirtækjum og viðskiptavinum það eftir að ráða því hverjir fá lán.
Samkvæmt nýju lögunum verður bannað að lána manni peninga ef „greiðslumat“ bendir ekki til þess að hann geti borgað til baka. Þeir, sem eru í þeirri stöðu en geta samt fundið mann sem er reiðubúinn að lána þeim, mega nú ekki lengur fá lánið. Þeir sem vilja taka áhættuna af því að lána honum, mega það ekki lengur. Ríkið ætlar að vernda þá báða.
Hver er helsti talsmaður þessarar reglu? Það er Evrópusambandið, sem dælir peningum, sem teknir eru af skattgreiðendum, í ný og ný lán til Grikkja.