Vefþjóðviljinn 297. tbl. 17. árg.
Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld reynt að ýta undir notkun bíla með Dieselvélar. Með því að tengja skatta á bæði bíla og eldsneyti við útblástur á koltvísýringi (CO2) hallar á flestar bensínvélar í samanburði við álíka Dieselvélar.
Þessi stefna hefur verið réttlætt með því að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda á borð við koltvísýring. Dieselvélar eru taldar hafa vinninginn í þeim efnum, þær gefa minni koltvísýring frá sér á ekinn kílómetra. Á árinu 2010 var til dæmis hætt að miða bifreiða- og vörugjöld á bíla við vélarstærð og skattarnir tengdir magni koltvísýrings ( CO2 ) í útblæstri bílsins á hvern ekinn kílómetra.
En koltvísýringur er ekki skaðlegur heilsu vegfarenda, koltvísýringur í útblæstri bíla skaðar ekki íbúa borga eða aðra þá sem eru í nálægð við bílaumferð. Það eru hins vegar agnir í útblæstri Dieselvéla taldar gera. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin færði útblástur frá Dieselvélum nýlega úr flokki efna sem valda líklega krabbameini í flokk þeirra sem valda því örugglega.
Eru íslensk stjórnvöld alveg viss um að þau vilji halda þessu Dieseldekri áfram?