Vefþjóðviljinn 271. tbl. 17. árg.
Borgarstjórn Reykjavíkur er komin á það stig að hún ætlar að láta starfsmenn sína gramsa kerfisbundið í sorptunnum borgarbúa. Það auglýsir hún stolt þessa dagana þar sem borgarbúum er hótað að tunnurnar verði ekki tæmdar finnist pappír í þeim. Það er út af fyrir sig nægur vitnisburður um stöðuna í borgarstjórninni að það sé talið heilbrigt og eðlilegt að starfsmenn sorphirðunnar kafi í ruslatunnur fullar af allt að tveggja vikna gömlu heimilissorpi og meti hvort þar sé „of mikill pappír“.
Hvað segir heilbrigðiseftirlit borgarinnar, sem dregur hvergi af sér við að krefjast handlauga í hvert horn í fyrirtækjum, við því að starfsmenn borgarinnar séu látnir stinga sér ofan í sorptunnur í leit að dagblaði eða gamalli stílabók?
Borgarstjórnin virðist einnig telja að fólk almennt kæri sig um að sorp þess sé lesið sundur á götum úti og dæmt eftir innihaldinu. En væntanlega verður öllum hugleiðingum um að gengið sé nærri friðhelgi heimilislífs með þessum aðgerðum svarað á sama hátt og öðrum alræðistilburðum: „Þeir sem hafa ekkert að fela þurfa ekkert að óttast.“
Allt er þetta gert með þann misskilning að vopni að „endurvinnsla“ á pappír sé óhjákvæmilega góð fyrir umhverfið. Það er talið umhverfisvænt að menn hafi sérstakar tunnur undir pappa, sérstakir öskubílar aki um og tæmi þær, papparuslið sé flokkað og pakkað í gáma og sent í siglingu til annarra landa þar sem það er endurunnið með tilheyrandi efna- og orkunotkun.
Og svo má velta því fyrir sér hvernig skyldum sveitarfélaga er háttað um þessi efni. Geta sveitarfélög sett endalaus undarleg skilyrði fyrir því að rækja lögboðnar skyldur sínar um sorphirðu? Ef svo er hafa bæst við rök fyrir því að létta þessum skyldum af þeim.