Vefþjóðviljinn 268. tbl. 17. árg.
Enn er tekist á um lagningu nýs Álftanesvegar og hópur manna reynir enn að hindra vegarlagninguna með valdi. Eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt er það á valdi samgönguráðherra en ekki Vegagerðarinnar að stöðva framkvæmdina og er full ástæða fyrir ráðherrann að gera það.
Samgönguráðherra segir nú opinberlega að ástæða þess að hún stöðvi ekki framkvæmdina sé að ríkið sé bundið af samningi við verktakann. Stöðvun framkvæmda gæti kallað mörg hundruð milljóna króna bótakröfur yfir ríkissjóð. Hér á ráðherrann við samning sem gerður var við verktakann í júlí síðastliðnum, en útboð fór fram í tíð fyrri ríkisstjórnar.Það er vissulega mögulegt að það gerði ríkið skaðabótaskylt við verktakann ef hætt yrði við framkvæmdina. En slíkar skaðabætur yrðu aðeins örlítið brot af kostnaðinum við vegagerðina því verktakinn fengi einungis bættan gróðann sem hann hefði haft af vegagerðinni.
Hagnaðurinn af gerð Álftanesvegar er aðeins brot af kostnaðinum við lagningu vegarins. Skaðabótakröfur verktakans eru lítil ástæða til að hætta við framkvæmdina. Það yrði mikill sparnaður fyrir ríkið að hætta við framkvæmdina, nú þegar nauðsyn er á gríðarlegum niðurskurði ríkisútgjalda.
En þetta minnir á að ríkið á að fara varlega í samningagerð. Sérstaklega eiga þingmenn að vera á verði fyrir samningum sem gerðir eru beinlínis til að tryggja ríkisframlög til ákveðinna málaflokka í mörg ár. Séu þeir samningar til langs tíma er ástæða fyrir ríkið að reyna að fá þeim hnekkt.