Vefþjóðviljinn 260. tbl. 17. árg.
Vilji menn framleiða og selja mjólk á Íslandi þurfa þeir ekki aðeins að eignast kýr og kunna að halda þær.
Til viðbótar þurfa menn að kaupa „mjólkurkvóta“ af starfandi mjólkurbónda. Ef enginn vill selja slíkan framleiðslukvóta geta menn einfaldlega ekki framleitt mjólk.
En í raun er þetta ekki kvóti á mjólk heldur munna. Kvótinn er sérleyfi til að selja ákveðnum hluta neytenda mjólk. Og það er eitthvað verulega ónotalegt við að ríkið hafi sett upp kerfi þar sem menn fá einkaleyfi á mjólkurþyrsta. En þetta er gert til að tryggja mjólkurbændum ásættanlegt verð fyrir mjólkina.
Til viðbótar við einkaleyfið fá mjólkurbændur svo árlega 6 þúsund milljónir króna í framleiðslustyrki úr ríkissjóði. Niðurgreiðslunum er auðvitað ætlað að tryggja að neytendur fái mjólkina á ásættanlegu verði – þegar þeir hafa sjálfir niðurgreitt hana í gegnum skattkerfið.
Sama ríkið og sett hefur upp þetta kerfi einokunar, verðsamráðs, hafta og ríkisstyrkja starfrækir einnig Samkeppniseftirlitið til að kenna mönnum heilbrigða viðskiptahætti. Og Neytendastofu svo að ekki sé svínað á neytendum.