Helgarsprokið 1. september 2013

Vefþjóðviljinn 244. tbl. 17. árg.

Fuglahús við ónefnda götu í Reykjavík.
Fuglahús við ónefnda götu í Reykjavík.

Líklega er meirihluti núverandi borgarfulltrúa í Reykjavík nokkuð einsleitur hópur með fremur þrönga sýn á tilveruna.  Og þessi sýn fellur mjög vel að kreddum margra embættismanna borgarinnar, ekki síst þeirra sem vinna að samgöngu- og skipulagsmálum. Útsýn þessa fólks er eins og úr fuglahúsi, takmörkuð í eina átt.

Þetta kæmi kannski ekki að sök ef þessi hópur ætti einhverja samleið með almennum íbúum borgarinnar. Svo er þó ekki í helstu álitamálum þótt allir jarmi þessir borgarfulltrúar um aukið íbúalýðræði og samræðustjórnmál.

Þessi sýn þeirra er líkt og söknuður eftir skólaárum í erlendri stórborg; skyldurnar fáar og vel afmarkaðar og hægt að fara allra sinna takmörkuðu ferða gangandi eða hjólandi með allt sitt hafurtask í bakpoka. 

Ætli þessir borgarfulltrúar og embættismenn átti sig til að mynda á því að margt fólk tekur með sér verkfæri og alls kyns efnivið í vinnuna á morgnana? 

Ætli þeir geri sér grein fyrir því að fólkið með verkfærin fer sjaldan marga daga í röð til vinnu á sama stað? Það þarf jafnvel að mæta á tvo eða fleiri staði dag eftir dag auk þess að sækja efni í byggingavöruverslanir og víðar og verða sér úti um kaffibrauð og hádegismat.

Til viðbótar þarf hinn almenni maður að sinna skyldum við fjölskylduna, kaupa í matinn og ferja börnin í skylmingar og reiðnámskeið. Þetta er sjálfsagt allt mögulegt án bílsins ef allir gerast borgarfulltrúar eða starfsmenn á skipulagssviði og hætta í þessum pípulögnum, múrverki, garðvinnu og öllum hinum óskiljanlegu störfunum þar sem menn geta ekki labbað á inniskónum niður í ráðhús þegar og ef þeir vakna á morgnana.

Svo er það hitt sem núverandi borgaryfirvöld skilja alls ekki og telja sig þar með þurfa að stöðva með öllum ráðum. Það er fólk þarna úti sem vill helst búa í sérbýli og hafa garð fyrir sig og sína sem sólin við 64 gráðu norðlægrar breiddar nær að skína ofan í nokkra mánuði á ári. Það kaupir jafnvel og rekur einkabíl þótt stjórnmálamenn hafi reynt að skattleggja þann kost eins og ávanabindandi vímuefni. Það má vel vera að þetta fólk hafi rangt fyrir sér og því liði miklu betur  á þriðju hæð á Hverfisgötunni og hefði kaffihús í göngufæri í stað sólpallsins. En Vefþjóðviljinn er hið minnsta þeirrar skoðunar að fólk megi hafa rangt fyrir sér og það sé ekki hlutverk borgarfulltrúa að hafa vit fyrir fólki.