Föstudagur 30. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 242. tbl. 17. árg.

Öðru hverju láta íslenskir Evrópusambandssinnar gera skoðanakannanir þar sem fólk er spurt hvort það vilji „ljúka“ aðildarviðræðum við Evrópusambandið og leggja „samninginn“ svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Hér er í raun á ferð ósvífin blekking. Það eru engar „samningaviðræður“ til að ljúka. Viðræðurnar við Evrópusambandið snúast um það að íslenskir og erlendir embættismenn fara yfir það hvernig gangi að laga íslenskar reglur að reglum Evrópusambandsins. Hverju sé þegar búið að breyta og hverju eigi eftir að breyta. Það er ekki verið að semja um að Evrópusambandið breyti neinu hjá sér. 

Þeir sem segjast „vilja sjá samninginn“, tala annað hvort gegn betri vitund eða af einstöku þekkingarleysi. Málið snýst einfaldlega um Evrópusambandið, eins og það er. Vilja íslendingar ganga í það eða ekki? Það er eina spurningin sem þarf að svara. Þeir sem vilja það ekki, þeir hafa ekkert við frekari „viðræður“ að gera, því „viðræðurnar“ eru allar á þeirri forsendu að „umsóknarríkið“ sé á leiðinni inn. „Umsóknarríkið“ þarf að laga sig að Evrópusambandinu , en ekki öfugt. 

Á blaðamannafundi í síðustu viku sagði Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, til dæmis að „framkvæmdastjórn Evrópusambandsins [hefði] komið því skýrt á framfæri við umsóknarríkin að þau hefðu óskað eftir inngöngu í sambandið og að sú ósk birtist í umsókn þeirra. Það [sé] hluti af skuldbindingu þeirra að uppfylla nauðsynleg skilyrði og gera það sem þarf að gera í umsóknarferlinu.“

Evrópusambandið má eiga það, að það tekur ekki þátt í blekkingarleiknum um að í gangi séu raunverulegar „samningaviðræður“ sem hægt sé að ljúka. Þann blekkingaleik stunda fyrst og fremst ákafir Evrópusambandssinnar, sem fá skoðanakannanafyrirtæki til að vinna fyrir sig kannanir. 

Allar kannanir um stuðning við það „að ljúka viðræðunum“ og leggja síðan „samninginn“ í dóm þjóðarinnar, eru alger markleysa, enda er þar spurt um stuðning við að „ljúka viðræðum“ sem aldrei hafa farið fram.

Menn gætu alveg eins spurt um stuðning fólks við það að sendiráði Júpíters verði lokað í mótmælaskyni vegna yfirgangs reikistjörnunnar við Karlinn í Tunglinu. Og að lokunin yrði í framhaldinu borin undir þjóðaratkvæði.