Vefþjóðviljinn 239. tbl. 17. árg.
Eitt af því sem hið opinbera hefur nær algerlega tekið að sér og einokað er skólastarf fyrir börn. Einungis 2% barna ganga í grunnskóla sem rekinn er af öðrum en sveitarfélögum landsins. Hlutfall þeirra sem sækja einkaskóla á menntaskólaárum er hins vegar um 17% og enginn gólar að það ógni jafnrétti til náms.
Í grein í Morgunblaðinu í gær vekur Kjartan Magnússon borgarfulltrúi athygli á niðurstöðum lestrarkönnunar meðal barna í 2. bekk grunnskólanna í Reykjavík sem sýnir dvínandi lestrarkunnáttu frá fyrri árum. Himinn og haf virðist milli einstakra skóla en allt frá 94% niður í 20% nemenda eru taldir geta lesið sér til gagns.
Vafalaust hefur bakgrunnur nemenda einhver áhrif á þessar niðurstöður. Skólum eru auðvitað takmörk sett, sérstaklega eftir aðeins tveggja ára vist nemenda. En þegar aðeins einn af hverjum fimm viðskiptavinum skóla nær raunhæfum markmiðum með skólagöngu þarf að grípa í taumana. Hvar myndi þjónustufyrirtæki þrífast með slíkan árangur nema undir pilsfaldi hins opinbera?
Kjartan telur ekki að núverandi meirihluti við stjórn borgarinnar sé líklegur til afreka í þessum efnum.
Ekki verður hjá því komist að nefna að verulega hefur skort á pólitíska forystu í menntamálum í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur ekki nógu mikil áhersla verið lögð á lestrarkennslu sem er þó ein af frumskyldum skólayfirvalda. Þess í stað hefur orkan farið í margvísleg gæluverkefni, t.d. umdeildan skólasamruna og endalausar stjórnsýslubreytingar, sem þó hafa ekki skilað bættum rekstri skóla- og frístundasviðs.
Þrátt fyrir að skólamál séu umfangsmesti og fjárfrekasti málaflokkur borgarinnar eru umræður um þau í borgarstjórn í skötulíki miðað við það sem áður þekktist. Jón Gnarr borgarstjóri virðist helst vera með hugann við utanríkismál. Framlag borgarstjórans til þeirra umræðna um menntamál, sem þó fara fram, er rannsóknarefni út af fyrir sig en sýnir hvílíkan skort á pólitískri forystu skólar borgarinnar og raunar allar borgarstofnanir þurfa nú að búa við.
Kjartan segir svo frá því að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG hafi þurft að leggja fram sérstaka tillögu á fundi skólaráðs borgarinnar um að nemendur og foreldrar fengju upplýsingar úr þessari könnun, hver fengi sína stöðu og skólans í heild í samanburði við aðra.
Það er furðulegt að þurfi sérstaka tillögu um að foreldrar – já og útsvarsgreiðendur – í borginni fái upplýsingar um árangurinn af því starfi sem fram fer í skólunum.