Vefþjóðviljinn 238. tbl. 17. árg.
Fremur fáar fréttir hafa verið af nýju ráðherrunum í sumar. Það kemur vitaskuld til af því að þeir hafa unnið af miklum krafti bak við tjöldin að lagafrumvörpum sem þeir ætla að leggja fram í haust, um að afturkalla flest það sem vinstristjórnin gerði á valdatíma sínum.
Þær fáu fréttir sem birst hafa, hafa einkum verið fréttir sem ráðherrarnir láta upplýsingafulltrúana senda frá sér: „Jón Jónsson, nýr frumkvæðismálaráðherra, heimsótti í dag Frumkvöðlastofu, sem heyrir undir ráðuneyti hans, kynnti sér starfsemina og heilsaði upp á starfsfólk. Í ávarpi sínu sagði ráðherra að mikilvægt starf væri unnið á stofnuninni og væri stefnt að því að efla það á komandi árum. Á meðfylgjandi mynd sjást ráðherrann og Andrésína Önd, forstjóri Frumkvöðlastofu, brosa.“
Þegar nýr ráðherra kemur í ráðuneyti keppast embættismennirnir við að gera hann að „sínum manni“. Láta ráðherrann hætta að verða mann skattgreiðenda og mann pólitískra hugsjóna og gera hann að manni „málaflokksins“. Ein aðferðin er að teyma hann í „heimsóknir til stofnana ráðuneytisins“. Sýna honum húsakynnin og kynna alla starfsmenn fyrir ráðherranum. Hvaða ráðherra, sem ekki hefur sterkar pólitískar skoðanir, myndi leggja niður stofnun eftir að hafa farið í slíka heimsókn? Hann er búinn að brosa á kaffistofunni. Hann er búinn að horfa í augun á starfsmönnunum og segja að þeir vinni mikilvægt starf. Hann verður þá líka að berjast fyrir „sínar stofnanir“ þegar kemur að fjárlagagerðinni.
Það er í raun engin ástæða fyrir ráðherra að fara í slíkar heimsóknir. Ráðherrann á ekki að verða ráðuneytisstarfsmaður. Hann þarf ekki að skoða allar skrifstofurnar í „stofnunum ráðuneytisins“. Hann á að berjast fyrir pólitískri meginstefnu, en ekki líta á sig sem kontórista. Hans raunverulegi „málaflokkur“ eru Ísland og skattgreiðendur.