Vefþjóðviljinn 236. tbl. 17. árg.
Þingmaður Framsóknarflokksins rakti húskauparaunir sínar í Íslandi í dag á Stöð 2 í vikunni. Það var allt leitt að heyra.
Meðal þess sem konan tefldi fram máli sínu til stuðning var að innlánum hefði verið bjargað í hruninu og nú væri komið að því að rétta hlut þeirra sem skulduðu við hrun bankanna. Þetta hefur svo sem heyrst áður.
Innstæðum var þó ekki bjargað betur en svo að þær féllu um helming í verði gagnvart flestu í heimi hér. Kaffipakkinn varð helmingi dýrari en áður í krónum talið, byggingarefni, olíudropinn sömuleiðis, Kanaríferðin.
En kannski hefðu innstæðurnar orðið enn verðminni ef ríkið hefði ekki tekið risalán erlendis til að Seðlabanki Íslands gæti státað af svonefndum gjaldeyrisforða og nýtt hann í skjóli gjaldeyrishafta til að falsa verðgildi krónunnar.
Ef það er rétt sem sagt er að krónan muni falla verði höftunum aflétt þá blasir við að höftin eru ekki aðeins til verndar þeim sem skulda verðtryggð lán heldur einnig þeim sem eiga íslenskar krónur. Þeir geta keypt bíla og sófasett á lægra verði en ella. Hluti reikningsins er sendur inn í framtíðina sem vaxtakostnaður af hinum skuldsetta gjaldeyrisforða seðlabankans. Höftin eru ekki aðeins á okkar kostnað heldur einnig afkomenda okkar.
Höftin voru sögð tímabundin temprun því enginn vill segja að slíkt úrræði verði til margra ára. En nú eru Íslendingar komnir með nær fimm ára reynslu af þessari gerviveröld.