Vefþjóðviljinn 235. tbl. 17. árg.
Bandarískur alríkisdómstóll úrskurðaði í dag að argentíska ríkið yrði að greiða tveimur bandarískum vogunarsjóðum að fullu skuldir þær sem sjóðirnir keyptu fyrir lítið fé, eftir að argentíska ríkið ákvað að borga ekki skuldir sínar.
Þessi niðurstaða er áminning til stjórnvalda í fleiri ríkjum þó auðvitað sé rétt að hafa í huga að Hæstiréttur Bandaríkjanna kann að fjalla um málið, og að óvíst er um lögsögu dómstólsins yfir argentíska ríkinu.
Vogunarsjóðirnir keyptu argentísku ríkisskuldirnar á miklum afföllum. En hverju breytir það? Sá sem skuldar, á hann ekki að borga skuldina?
Á Íslandi hafa menn miklar væntingar til fjár sem þeir telja sig geta náð af erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna. Þetta séu einhverjir vogunarsjóðir og þeir hafi bara keypt skuldirnar með afföllum og þess vegna þurfi þeir ekki að fá allt féð. Það megi taka stóran hluta af því og nota það til að borga inn á húsnæðisskuldir allt annars fólks.
Menn verða að átta sig á því, að kosningaloforð síðasta vors voru miðuð við það að fé fengist frá kröfuhöfum bankanna. Fáist það fé ekki, verður ekkert fé til að borga inn á skuldir skuldara. Jafnvel þeir sem mestu lofuðu í vor, töluðu ítrekað um að loforðin væru miðuð við fé sem sækja skyldi til kröfuhafanna. Dómsúrskurðurinn í Bandaríkjunum minnir menn á að slíkum málum lýkur hugsanlega ekki fyrr en eftir mjög mörg ár.