Fimmtudagur 22. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 234. tbl. 17. árg.

Fyrir átján árum voru menn til 10. júní að vinna fyrir sköttunum en nú strita menn fram í júlí.
Fyrir átján árum voru menn til 10. júní að vinna fyrir sköttunum en nú strita menn fram í júlí.

Samband ungra sjálfstæðismanna vakti athygli á því 7. júlí síðastliðinn að þann dag hættu Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera og byrja að vinna fyrir sig sjálfa. 

Almenningur er meirihluta ársins (187 daga) að vinna fyrir hið opinbera, eða frá 1. janúar til og með 6. júlí. Um 51% útgjalda heimilanna eru skattar og opinber gjöld. 

Heimdallur hóf að reikna skattadaginn út með þessu hætti árið 1995 bar hann upp á 10. júní og þótti mönnum nóg um. Næstu ár á eftir hnikuðust þessi tímamót í rétt átt um örfá daga. Vinnudögum fyrir hið opinbera fækkaði nokkuð á þennan mælikvarða.

En nú hefur heldur betur sigið á ógæfuhliðina. Hænufetunum í rétta átt hefur verið mætt með risastökki í ranga.

Vert er að hafa í huga að með þessum kvarða er ekki hægt að bregða máli á alls kyns kostnað sem ríkið leggur á menn með óbeinum hætti, boðum, bönnum og neyslustýringu.