Mánudagur 19. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 231. tbl. 17. árg.

Um helgina var frumflutt ný íslensk ópera. Höfundur tónlistarinnar, Gunnar Þórðarson, er eins og menn vita þekktari fyrir léttari dægurlög sín og eins og Ríkarður Örn Pálsson tónskáld segir í dómi sínum í Morgunblaðinu í morgun, hefur eflaust kitlað forvitni margra gesta að ópera væri samin af „sjálfmenntuðu söngvaskáldi“. Hin akademíska framúrstefna gerði yfirleitt lítið með „aftasta hlekkinn í keðjunni (hlustandann!). Og Ríkharður vísar til einnar þekktustu tilvitnunar enskrar tungu á síðustu öld og segir: „Gætu ugglaust fleiri en Churchill sagt í dag að sjaldan hefur jafnmikið af leiðinlegri músík verið samið af jafnhámenntuðum í óþökk jafnmargra – hvað svo sem annars má segja um margt slípirokk nútímans í fjarveru upplýsts valfrelsis.“

Það er vafalaust rétt hjá Ríkarði Erni að mikið er sett saman af leiðindum, af sprenglærðum listamönnum og í óþökk mjög margra. Og það sem meira er, á kostnað mjög margra.

Ríkisstjórnin segist ætla að spara í ríkisrekstrinum. Ætli ráðherrarnir ráði við að leggja til raunverulegan samdrátt fjárstreymisins til þeirra sem ráða í menningargeiranum? Ætli ráðherrar og þingmenn ráði við að skera raunverulega niður nauðungargjöldin sem skattgreiðendur eru látnir greiða menningarforstjórunum á hverju ári? Rekstrarstyrkina og starfslaunin, sem þiggjendur telja ekki aðeins sjálfsögð, heldur vilja einnig fá að ráða sjálfir hvernig sé úthlutað. Þeir láta ekki nægja að heimta fjárframlög úr ríkissjóði heldur telja þeir flestir í alvöru að kjörnir fulltrúar skattgreiðenda megi engu ráða um hvernig skattfénu verði ráðstafað. Það verði að gera faglega. Sem þýðir að samherjar í geiranum geri það.

Ætli núverandi þingmenn ráði við verkefni eins og þetta? Að skera raunverulega niður útgjaldaflóðið til menningargeirans? Og ætli sveitarstjórnarmenn ráði við sitt sambærilega verkefni, að rísa upp gegn íþróttaforystunni?

Hvenær ætli stjórnmálamenn berjist fyrir skattgreiðendur? Sennilega ekki fyrr en skattgreiðendur láta í sér heyra svo einhverju skipti.