Helgarsprokið 18. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 230. tbl. 17. árg.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt frá komu fram þrjú lagafrumvörp á Alþingi í vor sem ætlað var að auka möguleika ríkisvaldsins til söfnunar upplýsinga um persónuleg málefni fólks og einnig málefni fyrirtækja. 

Tvö frumvarpanna voru samþykkt á sumarþinginu. 

Frumvörpin voru öll því marki brennd, ekki síst frumvarp forsætisráðherrans um gagnaöflun í þágu svonefndrar skuldaleiðréttingar, að með þeim er gert ráð fyrir að upplýsingum sé safnað með því sem kallað hefur verið heysátuaðferðin. Þá raka menn saman ógrynni upplýsinga og leita svo í sátunni. Menn reyna ekki að gagni að takamarka leitina áður en byrjað er að safna. Í frumvarpi forsætisráðherra sagði til að mynda í athugasemdum að „tekin verði af öll tvímæli um að Hagstofunni sé heimilt í þágu hagskýrslugerðar að óska eftir upplýsingum af fjárhagslegum toga frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um viðskipti þeirra við þriðja aðila.“ Hvaða fjárhagsupplýsingar mætti ekki setja í hagskýrslu?

Þetta er aðferðin sem Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefur orðið heimsfræg fyrir eftir að Edward Snowden veitti fjölmiðlum upplýsingar þar um. 

Þegar svona er farið að er alveg ljóst að nánast ekkert, ef nokkuð, af upplýsingunum sem aflað er hefur gildi fyrir verkefni viðkomandi stofnunar. Nánast allir lenda hins vegar í tilefnislausum persónunjósnum.

Í tilviki Íslendinga eru hinar auknu heimildir réttlættar með því að þær séu nauðsynlegar til að „leiðrétta“ skuldir heimilanna, hafa eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum og koma bótum til fólks með skilvirkum hætti. 

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna segist safna upplýsingum til að tryggja öryggi borgaranna og verja þá gegn hryðjuverkum. 

Væntanlega er það almennt þyngra á metunum að verja borgarana gegn hryðjuverkum sem geta eins og dæmin sýna kostað mörg þúsund manns lífið en leiðrétta skuldir eða tryggja skilaskyldu á gjaldeyri.

En vega þessar ástæður, hverjar sem þær eru, þyngra en friðhelgi einkalífs, persónufrelsi? Er ekki frelsið einmitt hið veigamesta?

Netsjónvarp The Wall Street Journal á oft stutt en upplýsandi viðtöl við fólk um alls kyns mál. Hér að neðan er eitt þeirra þar sem tæpt er á ofangreindum álitaefnum. Þar kemur meðal annars fram að eitt af því sem íbúum í nýlendum Englendinga í Norður-Ameríku mislíkaði er leið að sjálfstæðisbaráttunni voru ótakmarkaðar heimildir fulltrúa konungs til eftirlits.