Laugardagur 17. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 229. tbl. 17. árg.

Engir kjörnir fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur fást til að tjá sig opinberlega um ruslið sem hrúgað hefur verið á Hofsvallagötuna til að þrengja að bílaumferð,  lokka hjólreiðamenn þétt upp að bílunum og skapa hættu á alvarlegum slysum. Það finnst líklega enginn búningur við hæfi.

Einu svörin sem fást er að þetta sé liður í einhverri hjólreiðaáætlun frá árinu 2010. 

Myndin hér að neðan er úr áætluninni og á að sýna dæmigerða götu fyrir og eftir að áætluninni hefur verið hrint í framkvæmd.

Úr hjólreiðaáætlun borgarinnar.
Úr hjólreiðaáætlun borgarinnar.

Þarna má sjá hvað gerist – í kollinum á stjórnendum borgarinnar – ef þrengt er að bílaumferð. Umkomulausir gangandi einhleypingar finna sér strax lífsförunaut og lifa hamingjusamir til æviloka. Tré taka mikinn vaxtarkipp. Fallegar stúlkur á reiðhjólum birtast í stað bílastæða. Og í stað svarta bílsins sem sendir frá sér stórt mengunarský kemur fallegur grænn bíll án útblásturs.