Helgarsprokið 11. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 223. tbl. 17. árg.

Meðal þeirra fáu sem hafa aðgang að hljóðnemum Ríkisútvarpsins til að flytja pistla yfir landsmönnum er Sigrún Davíðsdóttir, sérstakur „fréttaritari Spegilsins“ í London. Þaðan flytur Sigrún reglulega pistla um það sem henni liggur á hjarta.

Í síðustu viku flutti hún sérstakan pistil undir yfirskriftinni „Af hverju mega stjórnmálamenn ekki ljúga?“ og þar lagði hún út frá grein sem hún hafði lesið eftir ungverskan heimspeking í erlendu tímariti. „Ein ástæðan fyrir því að lygar eru svo hættulegar er að mannskepnan er yfirleitt frekar trúgjörn og því varnarlaus gegn lygum. Þegar einhver stendur fyrir framan okkur, hvort sem er í eigin persónu eða í fjölmiðlum, þá höfum við flest tilhneigingu til að trúa því sem okkur er sagt”, segir Sigrún í pistlinum.

Fyrir einu og hálfu ári vöktu tveir menn, blaðamaður Viðskiptablaðsins og sagnfræðingur, athygli á því að allt liti út fyrir að annað hvort nefndarmaður í rannsóknarnefnd Alþingis eða fréttamaður Ríkisútvarpsins hefðu farið með opinber ósannindi. Tveimur mánuðum eftir að mennirnir höfðu vakið athygli á þessu opinberlega, hafði Ríkisútvarpið ekkert sagt um málið. Vefþjóðvilijnn fjallaði þá um málið og sagði:

Þeir sem hafa engin góð svör, taka stundum þann kost að svara engu. Ríkisútvarpið virðist ætla að nota þá aðferð þegar kemur að mikilvægri spurningu um einn ákafasta fréttaritara þess og nefndarmenn í rannsóknarnefnd Alþingis. En fyrst Ríkisútvarpið svarar enn ekki, þá er sjálfsagt að endurtaka spurninguna og frásögnina af málinu.

Í febrúar vöktu Björn Jón Bragason sagnfræðingur og Andrés Magnússon blaðamaður athygli á því að einn af fréttamönnum Ríkisútvarpsins, Sigrún Davíðsdóttir, hefði haldið því fram opinberlega að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi, eftir að hún skilaði skýrslu sinni og lauk störfum, svarað efnislega spurningum sínum og staðfest skilning fréttamannsins á ýmsum atriðum skýrslunnar. Nokkru síðar hafi hins vegar birst yfirlýsingar nefndarmannanna þriggja, Páls Hreinssonar, Sigríðar Benediktsdóttur og Tryggva Gunnarssonar, þar sem þau fullyrtu öll að þetta hefðu þau alls ekki gert. Ekkert þeirra hefði svarað nokkrum fjölmiðlamanni um efni skýrslunnar eftir að nefndin hafi lokið störfum sínum.

Hér er alvarlegt mál á ferðinni sem Ríkisútvarpið hlýtur að þurfa að svara spurningum um. Það sem liggur fyrir er þetta:

Einn mest áberandi fréttamaður Ríkisútvarpsins, sem mjög hefur fjallað um bankahrunið, heldur því fram opinberlega að Rannsóknarnefndarmenn hafi svarað og staðfest við sig skilning sinn á vissu efni skýrslunnar. Nefndarmennirnir allir mótmæla því. Hér getur tæplega verið um misskilning að ræða. Að minnsta kosti annar aðilinn, fréttamaðurinn eða rannsóknarnefndarmenn, einn eða fleiri, virðast fara hér með bein ósannindi.

Hvernig bregst Ríkisútvarpið við? Ef Rannsóknarnefndarmaður, einn eða fleiri, fer með ósannindi um störf nefndarinnar í opinberri yfirlýsingu, þá er það augljóslega fréttnæmt. Ef fréttaritari Ríkisútvarpsins, sem mikið hefur fjallað um bankahrunið, fer með ósannindi um samskipti sín og Rannsóknarnefndarinnar, þá er það stórt mál. Ætlar Ríkisútvarpið bara að láta eins og ekkert sé?

Hvers vegna heyrist ekkert frá Ríkisútvarpinu um þetta, þótt liðnir séu meira en tveir mánuðir síðan þetta mál kom upp? Hvers vegna svarar Ríkisútvarpið því ekki hvor fór með ósannindi opinberlega, fréttaritari Ríkisútvarpsins eða Rannsóknarnefndarmaður Alþingis, einn eða fleiri? 

Ríkisútvarpið hefur enn engu svarað um þetta. Þeir sem gagnrýna Ríkisútvarpið fá yfirleitt engin önnur svör en að það njóti mikils trausts.