Vefþjóðviljinn 219. tbl. 17. árg.
Ef horft er annars vegar til þess í hvaða löndum efnahagsleg lífskjör eru almennt best og svo til þess hvaða lönd tryggja best vernd almenns einkaeignarréttar, þá sést greinilega að lífskjör eru því betri sem einkaeignarréttur er betur tryggður.
Það þarf ekki að koma á óvart. Flestir telja sig líklega hafa minni ástæðu til að leggja mikið á sig til að afla sér eigna, ef þeir hafa ástæðu til að ætla að eignin kunni að vera tekin af þeim bótalaust, bara ef stemmingin í landinu verður þannig. Menn fara síður út í viðskipti, menn leggja minna á sig til að eignast fasteign, bifreið eða annað, ef þeir halda að einn daginn verði eignin bara tekin af þeim. Hver ætti að leggja á sig margra ára erfiði við að rækta upp bújörð eða gera upp húseign, ef eignarréttur hans er svo ekki virtur?
Þegar menn grafa undan einkaeignarrétti grafa þeir líka undir lífskjörum í landi sínu, til lengri tíma litið. Sama á við þegar menn taka að leggja þunga eignarskatta á menn. Eignaskattur er í raun eignaupptaka í áföngum og því bagalegri sem hann verður þyngri.
Menn ættu að gjalda afar mikinn varhug við skerðingum á einkaeignarrétti. Skerðingarnar eru auðvitað jafnan kynntar sem sérstakt skref í „almannaþágu“, en í raun grefur hver og ein þeirra undan einkaeignarréttinum, sem er ein allra mikilvægasta stoðin undir batnandi lífskjör og efnahagslegar framfarir. Hvort sem stjórnlyndir menn reyna að taka eignir manna af þeim, skerða nýtingarrétt þeirra eða banna eiganda á annan hátt að ráðstafa eign sinni eftir eigin vilja, þá er verið að grafa undan einkaeignarrétti. Meginreglan á að vera sú að menn fái að eiga og nýta eignir sínar, eins og þeim sjálfum þykir best. Stjórnmálamenn eiga að hafa bein í nefinu til að vernda og styrkja einkaeignarréttinn og berjast af alefli gegn samfelldri sókn stjórnlyndra sameignarsinna gegn honum.
Um mikilvægi einkaeignarréttar er meðal annars fjallað í bókinni Leyndardómi fjármagnsins, sem fæst í Bóksölu Andríkis.