Laugardagur 3. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 215. tbl. 17. árg.

Leiðari nýjasta Viðskiptablaðsins ber yfirskriftina „Einkamál framteljenda“ og víkur að birtingu álagningarskrár:

Andstaðan við opinbera birtingu álagningar- og skattskráa snýst ekki um að vernda þá einstaklinga sem fá mesta athygli fjölmiðla í kjölfar þess að ríkisskattstjóri leggur skrárnar fram. Andstaðan snýst um að vernda almenning fyrir hnýsni nágranna, vinnufélaga, fjölskyldumeðlima og annarra um viðkvæm einkamál. Það er ekki hægt að afnema tímabundið sjálfsagðan rétt fólks til að njóta friðhelgi einkalífs – sem fjárhagsmálefni einstaklinga heyra undir – með þeim rökum að hugsanlega komist upp um einhverja skattsvikara. Þá eru hagsmunir ríkisins teknir fram yfir hagsmuni einstaklingsins.

Birting álagningarskráa á sér sögulegar skýringar sem ekki eiga lengur við. Að auki hefur skattstjórinn á að skipa öflugu fólki sem hefur þekkingu og víðtækar heimildir til að sigta þá einstaklinga út sem hugsanlega borga ekki lögbundna skatta. Það er þeirra hlutverk að hafa eftirlit með skattgreiðslum fólksins í landinu en ekki etja saman borgurunum, gera þá að njósnurum og hvetja til að klaga nágranna sína ef þeir lifa um efni fram miðað við tekjustofn. Þetta ógeðfellda skipulag grefur undan sátt í samfélaginu, ýtir undir illmælgi og tortryggni í garð náungans sem ef til vill byggir á misskilningi vegna ófullkominna upplýsinga sem liggja á glámbekk.

Skattar eru kvöð sem ríkið leggur á einstaklinga. Sú kvöð er ekki góð réttlæting fyrir frekari skerðingu réttinda, í þessu tilviki friðhelgi einkalífs.