Vefþjóðviljinn 208. tbl. 17. árg.
Sumarhefti Þjómála er komið út og kennir þar ýmissa grasa að vanda eins og útgefandi rekur í tilkynningu.
Guðmundur Edgarsson skrifar athyglisverða grein og lýsir tilgangslitlum millifærslum á skattfé landsmanna í velferðarkerfinu og telur hinn frjálsa markað geta tryggt almenningi nauðsynlegan velferðarstuðning mun betur en óskilvirkt ríkisvald.
Björn Jónasson fjallar um kvikmyndina Hvell, þar sem Laxárdeilan er rifjuð upp, og segir kvikmyndina herhvöt að baráttu fyrir friðhelgi Mývatns sem sé í stórhættu vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda.
Jón Magnússon fjallar um búsáhaldabyltinguna í tilefni nýútkominnar samnefndrar bókar, Styrmir Gunnarsson skrifar um vinstri hreyfinguna, Morgunblaðið og Svavar Gestsson, Ragnhildur Kolka fagnar nýrri ríkisstjórn og mælist til þess að hún fylgi stefnu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum og Björn Bjarnason fjallar um úrslit alþingiskosninganna.
Stefán Snævarr skrifar um alþjóðarembu Marx og Engels, Sigurður Már Jónsson segir frá lífinu í Stasilandi, Ólafur Hannesson skrifar um feigðarför ESB-umsóknar, Magnús Bjarnason segir frá hugmyndum sínum um flugvöll í Önundarfirði og Geir Ágústsson fjallar um marklausa ádeilu á kapítalismann.
Birt er þýðing Jóns Hjaltasonar á kvæði Edgars Allan Poe, „Spakmæli handa Vallarstræti og útrásarvíkingum“. Í bókadómum er fjallað um sex nýútkomnar bækur, þar á meðal kver Jóns Steinars Gunnlaugssonar um Hæstarétt.
Áskrift að Þjóðmálum fæst í bóksölu Andríkis.