Vefþjóðviljinn 204. tbl. 17. árg.
Suður-Afríka hýsir nær níu af hverjum tíu nashyrningum í Afríku. Veiðiþjófnaður á þessum forneskjulegu skepnum er stórkostlegt vandamál. Jafnvel er talið að veiðiþjófar muni fella yfir þúsund dýr á þessu ári.
Á Earth Touch var nýverið rætt við Michael ’t Sas-Rolfes um þessi mál en í byrjun mánaðarins lýsti umhverfisráðherra Suður-Afríku því yfir að ríkið myndi hugsanlega styðja alþjóðlega verslun með horn dýranna en slík viðskipti eru nú með öllu bönnuð.
Í stórum dráttum þá er staðan sú að veiðiþjófar og þeir sem eiga ólögleg viðskipti með hornin eygja miklu meiri hagnaðarvon – og hafa úr meira peningum að spila – en þeir sem eiga dýrin eða gæta þeirra. Eftirspurn í Asíu eftir hornunum er mikil og ekki búist við að hún minnki í framtíðinni. Þeir sem sinna þessum viðskiptum í Asíu gera þar að auki ráð fyrir verðið hækki enn frekar þegar hornin verði ófáanleg.
Michael ’t Sas-Rolfes hefur litla trú á að aukið eftirlit muni koma í veg fyrir veiðiþjófnaðinn.
Veiðiþjófar og aðrir glæpamenn eru skammsýnir. Ef þeir sjá fram á skyndigróða sem aðeins eru litlar líkur á að hafi í för með sér refsingu í óljósri framtíð líta þeir hiklaust fram hjá mögulegum neikvæðum afleiðingum. Og hvað hefur það svo sem upp á sig að lögsækja þá ári eða tveimur síðar? Þá eru hvort eð er nýir veiðiþjófar mættir til leiks. Til að stöðva þjófnaðinn þurfa veiðiþjófarnir að vera nær sannfærðir um að þeir fari erindisleysu.
Með því að leyfa viðskipti með hornin fengu eigendur dýranna tekjur sem nýttust við að gæta þeirra og veiðiþjófar hefðu ekki lengur hag af því að drepa dýrin.
En það er ekki nóg að Suður-Afríka leyfi slík viðskipti því helstu markaðir eru í Asíu. Alþjóðlegt bann við verslun með dýr í útrýmingarhættu, CITES, kemur í veg fyrir viðskiptin. Þar eru auðvitað öll lönd í Vesturheimi með sín hafnaryfirvöld í Rotterdam í hverju ráðuneyti.