Miðvikudagur 17. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 198. tbl. 17. árg.

Í síðustu viku ákvað borgarráð Reykjavíkur að selja margra milljarða króna skuldabréf, gefið út af Magma í Svíþjóð, því mikla fyrirtæki. Ekki hafa fengist miklar upplýsingar um málið, enda er borginni nú stýrt af opnum gegnsæisflokkum nýrra tíma. En að minnsta kosti er ljóst að bréfið hefur verið selt með talsverðum afföllum.

Ekki mun hafa verið gefið upp hver hafi keypt bréfið með afföllunum. En sé það ekki útgefandinn sjálfur, þá ætlar hann væntanlega að innheimta bréfið að fullu þegar gjalddagi þess kemur síðar. Slík viðskipti eru alvanaleg. Skuldareigandi vill fá hluta skuldarinnar greiddan strax, frekar en að bíða og fá kannski meira einhvern tíma seinna. Einhver annar er hins vegar tilbúinn að til að bíða og hagnast þá um mismuninn. Ekkert óeðlilegt við slík viðskipti í sjálfu sér.

Þegar skuldabréfið kemur í gjalddaga þá er hins vegar eins gott fyrir þann sem keypti bréfið að í Svíþjóð verði ekki komnir til valda framsóknarmenn með excel. Þeir gætu fengið þá hugmynd að nýi skuldareigandinn sé bara einhver vargur sem hafi keypt kröfu til þess að græða á henni sjálfur síðar, og þess vegna megi alveg taka af honum peningana hans og nota þá til að, ja borga niður yfirdráttarlán skuldugra Svía.

Eða eitthvað annað svipað.

Að minnsta kosti þykir alveg sjálfsagt á Íslandi að þeir, sem hafa keypt kröfur á íslenska banka með afföllum og ætla að innheimta þær, eins og allsstaðar er heimilt, verði bara sviptir kröfunum sínum nema þeir fallist á að borga kosningaloforð íslenskra framsóknarmanna og lækka húsnæðisskuldir þeirra sem tóku lán á tilteknu árabili. Fjölda fólks þykir þetta alveg sjálfsagt. Það er alger tilviljun að sama fólk skuldar einmitt lánin sem það tók og finnst eðlilegt að einhverjir aðrir borgi þau. Það varð nefnilega fyrir forsendubresti.