Vefþjóðviljinn 195. tbl. 17. árg.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skrifaði í síðustu viku grein í Morgunblaðið og sagði þar margt skynsamlegt. Hann talaði um fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins og benti á að hið opinbera eyðir miklum fjárhæðum úti um allt, á sama tíma og heilbrigðiskerfið á í mikilli fjárþröng.
Á sama tíma og barist er í bökkum og kerfinu haldið gangandi með seiglu starfsmanna, er ætlunin að ráðast í húsbyggingar á ýmsum stöðum, s.s. sjúkrastofnana, fangelsis og Húss íslenskra fræða fyrir milljarða króna. Á sama tíma og þrengt er að starfi heilbrigðisstofnana um allt land og álagið stöðugt aukið renna milljarðar í margvíslega styrki og sjóði og rekstur sendiráða víða um heim. Á sama tíma og teflt er á tæpasta vað í heilbrigðisþjónustu landsmanna hefur eftirlitskerfi hins opinbera þanist út og nýjar stofnanir settar á fót.
Þetta eru fínar ábendingar hjá Kristjáni Þór. Hann birti þær í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins. Daginn eftir var sprengd hátíðarsprengja við upphaf gangagerðar í Vaðlaheiði. Forsætisráðherra sprengdi og samkvæmt fréttum voru meðal viðstaddra Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon. Enginn efast um að Kristján Þór hefur þarna lesið upp úr grein sinni um mikilvægi þess að spara í ríkisrekstri svo eiga megi fyrir útgjöldum til heilbrigðismála.
Að vísu nefndi Kristján Þór ekki Vaðlaheiðargöngin þegar hann taldi upp eyðslu ríkisins í annað en heilbrigðismál. Þau eiga að kosta rúmlega ellefu milljarða. Auðvitað er því haldið fram að þau verði unnin í einkaframkvæmd og svo verði innheimt veggjöld. En verktakarnir höfðu að minnsta kosti ekki meiri trú á því en svo að þeir heimtuðu ríkisábyrgð. Ekki þarf að endurtaka hér hvernig staðið var að því að hindra að Ríkisendurskoðun færi yfir útreikningana sem notaðir voru til að fá ríkisábyrgðina samþykkta.
Á síðasta kjörtímabili var Kristján Þór Júlíusson talsmaður sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd alþingis. Hann hefur vafalaust lagt fram harðar niðurskurðartillögur í anda þeirra sjónarmiða sem hann birti í greininni í síðustu viku. Hann hefur við fjárlagagerð talað í þessa veru, dag og nótt.
Ekki vill Vefþjóðviljinn kvarta yfir því sem Kristján Þór setti fram í greininni. Þar var margt fínt að finna. Það sem er hins vegar þreytandi er áhugi allra á sínum eigin málefnum. Kristján Þór er orðinn heilbrigðisráðherra og þess vegna þurfa þau að hafa forgang í fjárveitingum. Hann er líka þingmaður kjördæmis síns og því er ekki ástæða til að hætta við framkvæmdir þar.
Þetta á ekki við um Kristján Þór frekar en aðra og auðvitað ekki sanngjarnt að þessi fína grein hans verði til þess að hann sé hér tekinn út úr. En það þarf að berjast gegn þessum sið margra að einblína á eigin hagsmuni ofar grundvallaratriðum.
Margir sem skilja almennt nauðsyn niðurskurðar vilja hann alls ekki á eigin áhugasviði. Fótboltaáhugamaður vill alls ekki að sveitarfélagið hætti að byggja stúkur, fyrr en hans eigið félag er komið með stúku. Áhugamaður um klassíska tónlist vill að ríkið reki sinfóníuhljómsveit en hann vill alls ekki reka sendiráð í Kína. Fáir virðast til dæmis verða reiðir yfir skatti sem þeir borga ekki sjálfir. Fáir velta erfðafjárskatti fyrir sér fyrr en þeim tæmist arfur. Þá finnst þeim hann gríðarlega ósanngjarn. Sem hann að vísu er. Þeir sem ekki borga „hátekjuskatt“ telja víst fæstir að hann hafi slæm áhrif á hagkerfið. Sumir verða æfareiðir og kalla það gjöf ef skattur á aðra er lækkaður. Næstum þeir einu sem taka undir grundvallaratriðið að eigandi húss setji húsreglur en ekki gestir hans og þess vegna eigi veitingahússeigandi að ráða því hvort hann leyfi reykingar, eru þeir sem sjálfir reykja. Það er mjög sjaldgjæft að heyra einhvern segja að hann reyki ekki, þyki tóbaksreykur vondur og leiðinlegt að finna lykt af jakkanum sínum daginn eftir, en að samt sé það grundvallaratriði að húsráðandi ráði eigin húsi og að enginn sé neyddur inn á staðinn hans.
Auðvitað er skiljanlegt að menn hugsi um eigin hagsmuni. En þeir eiga þá að viðurkenna að þeir séu einfaldlega að skara eld að eigin köku. En helst eiga þeir að hafa manndóm til að hætta að heimta að aðrir séu skattlagðir til þess að borga fyrir þá áhugamálin, hvort sem þau eru íþróttir, tónlist, jarðgöng eða annað.