Laugardagur 13. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 194. tbl. 17. árg.

Á dögunum voru sagðar af því fréttir að búið væri að semja við landsstjórnina og hafnarstjórnina í Brimaborg um undirbúning byggingu hafnar í Finnafirði á Íslandi. Ríkisútvarpið sagði svo frá:

Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa gengið til samstarfs við Bremenports í Þýskalandi um rannsóknir og prófanir vegna mögulegrar uppbyggingar athafna- og hafnarsvæðis í Finnafirði. Þetta samstarf var kynnt í morgun í Bremen í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Þýskalands.

Með í einhverjum fréttum fylgdi einnig að eftir ætti að semja við landeigendur í Finnafirði um málið og þeir væri jafnvel mótfallnir þessum framkvæmdum. Já búið að semja við Brimaborgara um höfn á landi fólks sem ekki kærir sig um höfn á landi sínu.

Því miður er þetta ráðslag algengt við stórframkvæmdir á Íslandi. Undir forystu opinberra aðila er anað af stað án þess að tala við, hvað þá semja við, eigendur landsins. Og ef þeir eru með múður er eignarnámi hiklaust beitt og sovéskri nefnd falið að setja verðmiða á landið.