Vefþjóðviljinn 193. tbl. 17. árg.
Við stjórnarskipti sagði Vefþjóðviljinn að ýmis lítil mál gætu strax í upphafi gefið vísbendingu um hvers mætti vænta af nýjum ráðherrum. Myndu þeir snúa til baka frá forræðishyggju og eyðslu eða myndu þeir forðast átök um slík mál eins og þeir gætu.
Nokkur dæmi voru nefnd og þar á meðal var þetta:
Barið var í gegnum Alþingi að skattgreiðendur tryggðu fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Til stuðnings framkvæmdunum voru lagðir fram útreikningar sem áttu að sýna að skattgreiðendur myndu í raun ekki tapa krónu á framkvæmdinni. Allt var svo gert til að tryggja að Alþingi gæti ekki látið fara fram óháða úttekt á útreikningunum.
Meðal annars neitaði Ríkisendurskoðun beiðni þingnefndar um að fara yfir útreikningana og gaf það furðulega svar að ríkisendurskoðandi persónulega væri vanhæfur til að gera það. Allir hljóta hins vegar að sjá að sé forstöðumaður vanhæfur kemur einfaldlega annar í hans stað, en stofnunin neitar ekki að vinna verkið.
Nú reynir á nýja ráðamenn. Kominn er nýr meirihluti á Alþingi og nýr ráðherra samgöngumála. Mun Alþingi nú sjá til þess að Ríkisendurskoðun vinni þá úttekt sem hún var beðin um? Mun nýr samgönguráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, gera það sem í hennar valdi stendur til að stöðva framkvæmdir og fjárútlát þar til slík úttekt hefur farið fram?
Svar við þessu hefur nú borist með hvelli.