Vefþjóðviljinn 187. tbl. 17. árg.
Í liðinni viku ræddu þingmenn hvort hækka skyldi skattinn „veiðileyfagjald“ örlítið minna í haust en fyrri þingmeirihluti hafði samþykkt. Skatturinn hækkar því í haust en bara ekki alveg jafn mikið og vinstri stjórnin hafði í hyggju.
Engu að síður hrópuðu þingmenn vinstriflokkanna að nú væri verið að lækka skatta á útgerðina og jafnvel færa henni „gjafabréf“ og fleira af því taginu.
Umræðan er orðin þannig að þegar skattahækkanir verða ekki alveg jafn miklar og samanlagðar óskir Steingríms J. Sigfússonar og Helga Hjörvar segja til um þá eru viðkomandi skattgreiðendur að fá „gjafabréf“.
Þessi meðferð á tungunni er í samræmi við það þegar útgjöld úr tómum ríkissjóði eru kölluð „leiðrétting skerðinga“, „leiðrétting á forsendubresti“ eða „leiðrétting á kjörum miðað við samanburðarstéttir“. Það er sífellt látið eins og skattgreiðendur hafi verið að svindla á alls kyns hópum með því að afhenda þessum hópum ekki alveg allar eigur sínar. Og helst skulu þeir veðsetja framtíðartekjur sínar einnig eins og skuldastaða ríkissjóðs ber með sér.