Vefþjóðviljinn 182. tbl. 17. árg.
Líkt og Vefþjóðviljinn sagði frá á dögunum var samþykkt á handahlaupum á Alþingi í vor að leiða í lög kvaðir um íblöndun svonefnds „endurnýjanlegs eldsneytis“ í eldsneyti í samgöngum á landi. Þetta er gert til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins þar sem mönnum er uppálagt að vera með lágmark 10% hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis árið 2020. Lögin fara að hafa áhrif um næstu áramót.
Íblöndun af þessu tagi hefur margvíslegan kostnað í för með sér við sérstök innkaup, flutning og birgðahald. Og auðvitað hlýst af meiri flutningum og auknu birgðahaldi meiri mengun, jafnvel þótt eldsneyti sé kallað „endurnýjanlegt“ eða „lífeldsneyti“.
Hið endurnýjanlega eldsneyti er í flestum tilvikum rýrara að orku en hefðbundið jarðefnaeldsneyti svo bílstjórar þurfa fleiri ferðir á bensínstöðvar.
Því til viðbótar er erfitt að fullyrða um hve mikið dregur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda við notkun á svonefndu „endurnýjanlegu“ eldsneyti, sem er þó sögð helsta ástæða fyrir brölti stofnana í Evrópu í þessa veru.
Að því ógleymdu hvaða áhrif það hefur á matarverð í heiminum að skikka menn til að setja hluta uppskeru í eldsneytisgeyma bifreiða.
Í síðustu viku skilaði samstarfshópur um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum úttekt á framkvæmd áætlunarinnar til umhverfis- og auðlindaráðherra.
Þar segir:
Ýmis áhugaverð rannsóknarverkefni eru í gangi sem miða að ræktun og vinnslu lífeldsneytis, en langt er þó í land með að lífeldsneyti verði samkeppnisfært í verði við jarðefnaeldsneyti, auk þess sem loftslagsávinningur lífeldsneytis er misjafn og þarf að skoða vel hvert tilfelli fyrir sig í þeim efnum. Fátt bendi til þess að aukin notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann sé innan seilingar en íblöndun lífeldsneytis í díselolíu er hafin, 3-5%. Almennt er staðan þannig á heimsvísu að bjartsýni um stórfellda innkomu lífeldsneytis, sem var ríkjandi fyrir nokkrum árum, hefur dofnað.
Verst að þessi skýrsla umhverfisráðuneytisins var ekki komin út áður en ráðuneytið renndi því í gegnum þingið að lífeldsneyti skyldi hellt saman við annað eldsneyti.