Helgarsprokið 30. júní 2013

Vefþjóðviljinn 181. tbl. 17. árg.

Í síðustu viku fordæmdi Evrópuráðið pólitísk refsimál. Þó ekki hafi verið nefnd bein dæmi er almennt álitið að þar hafi verið átt við sakamálin á hendur Júlíu Timochenko í Úkraínu og Geir H. Haarde á Íslandi. Í framhaldi af þessu hefur fjármálaráðherra lýst vilja til að endurskoða landsdómslögin íslensku og heilbrigðisráðherra vill leggja landsdóm niður.

Að vísu er ekki allt gott þó það komi frá stofnunum með flottu útlendu nafni. Sama Evrópuráð vill til dæmis  ekki leyfa alþingi Íslendinga að velja sjálft fulltrúa sína á Evrópuráðið, heldur gerir kröfu um ákveðið kynjahlutfall fulltrúanna og annars fái enginn þeirra að kjósa. Ofstæki virðist því einnig eiga sér málsvara í Evrópuráðinu.

En hitt er rétt. Málaferli eins og þau sem efnt var til hér gegn Geir H. Haarde voru mjög ógeðfelld. Og fréttir herma að þau séu litlu betri í Úkraínu gegn Timochenko.

Ákæruatriðin sem borin voru á Geir, og reynt var að bera á þrjá aðra ráðherra, voru fráleit. Enda var ákærandinn, alþingi, gerður afturreka með allt nema eitt smáatriði sem engu skipti, að Geir hefði ekki haldið sérstakan ríkisstjórnarfund þar sem bókað hefði verið í fundargerð að rætt hefði verið um vandamál bankanna. Auðvitað vita allir að það atriði skipti engu um hvernig fór. 

Þingmennirnir sem samþykktu að gefa út ákæru samkvæmt þessum ákæruatriðum urðu sér til skammar. Og þar er rétt að minnast þess að sumir þeirra reyndu einnig að fá fleiri einstaklinga ákærða fyrir sömu atriði. Margir þessara þingmanna sitja enn á þingi. Tveir eru ráðherrar.

Eitt það versta við ákvörðunina um ákæru var að margir þingmenn, sem hana tóku, virtust alls ekki skilja á hvaða forsendum þeir mættu gera það. Margir þeirra töluðu nefnilega eins og þeir tækju ekki afstöðu til sektar eða sakleysis, það ætti bara að fá niðurstöðu um það fyrir landsdómi. Slíkt er fráleitt. Ákærandi má ekki gefa út ákæru nema hann telji meiri líkur á sakfellingu en sýknu. Hann má ekki gefa út ákæru til að prófa. Eða til að friðþægja einhverjum. Eða af því að vitnaleiðslurnar geti orðið fróðlegar eða að það væri bara betra fyrir Geir að „fá að hreinsa sig“. 

Það er ótrúleg misnotkun á ákæruvaldi þegar þingmenn greiða atkvæði með ákæru, án þess að vera sjálfir alveg sannfærðir um sekt mannsins. Að ekki sé talað um ef þeir gera það til þess að fá fram vitnaleiðslur sem þeir halda að geti verið áhugaverðar. Ákvörðun meirihluta alþingis að kalla landsdóm saman var til skammar. Þeir sem hana tóku, og reyndu ekki að bæta fyrir það þegar færi gafst, urðu sér til verulegrar skammar.  Sumir sáu að sér og eru í allt annarri stöðu.

En á að afnema landsdómslögin? Ekki nauðsynlega. Þau voru misnotuð og meirihluti alþingismanna varð sér til skammar. En það er ekki þar með sagt að landsdómur sé slæmt fyrirbæri. Tilvist hans olli engum vandræðum fyrr en þingið 2009-2013 varð til. Þau ár hafði ofstækið völdin á Íslandi. Það er ekki sanngjarnt að dæma allt eftir því hvernig það reyndist á þeim árum. Það er hins vegar sjálfsagt að endurskoða lögin og setja girðingar við því hvernig þingið fer með þetta vald sitt. Ef til dæmis yrði krafist mjög aukins meirihluta þingmanna fyrir ákæru, til dæmis ¾  eða 4/5, þá mætti tryggja að ekki yrði efnt til ákæru nema um það væri mjög víðtæk samstaða á þingi. 

Önnur girðing getur verið sú, að þeir þingmenn sem taka ákvörðun um ákæru leggi eigin þingsæti að veði. Ef sýknað er missi þeir kjörgengi sitt um ákveðinn tíma. 

Þó almennt verði sú meginregla að gilda að einfaldur meirihluti ráði, þá má færa gild rök fyrir því að öðru máli gegni um ákvörðun um ákæru. Menn þekkja þá reglu að sé skynsamlegur vafi á sekt hins ákærða þá beri að sýkna hann. Þegar 63 einstaklingar fara saman með ákæruvald og þeir skiptast þannig að 33 telja ástæðu til ákæru en 30 ekki, er þá ekki ljóst að töluverður vafi er á málinu? Og vilja menn að við þær aðstæður sé efnt til ákæru? Ákærandi sem er svo á báðum áttum, á hann að gefa út ákæru?

Það er á margan hátt skynsamlegt að ákæruvald í slíkum málum sé hjá alþingi. Vilja menn til dæmis að saksóknari úti í bæ ákveði einn daginn að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki verið nógu vel á verði? Eigi að taka slíka ákvörðun, sem er mjög vafasamt, þá er betra að alþingi geri það, eftir einhverjum skynsamlegum reglum. En í ljósi þess sem gerðist á ofstækisárunum er eðlilegt að ræða alvarlega hvort ekki eigi að setja girðingar við því hvernig þingið fer með þetta vald í framtíðinni. Það er víst ekki hægt að treysta því að ofstækisliðið komist aldrei aftur í meirihluta.