Vefþjóðviljinn 180. tbl. 17. árg.
Börkur Gunnarsson skrifar athyglisverðan ritdóm um Búsáhaldabyltingu Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðið í dag. Þar segir hann meðal annars:
Í þau örfáu skipti sem undirritaður var á landinu á meðan þessi ofbeldisalda gekk yfir tók hann þátt í mótmælunum. Þannig tókst að virkja reiði manns yfir því að handfylli af fjármálamönnum hafði sett Ísland á hliðina. Til að tjá þá reiði sína mætti maður og stóð við hliðina á þeim sem voru ekkert að mótmæla fjármálamönnunum; menn sem höfðu þvert á móti barist með fjármálaöflunum gegn stjórnvöldum af einhverri genetískri áráttu til að vera alltaf á móti sjálfstæðismönnum. Það hefur blundað í manni sú tilfinning að maður, rétt einsog margir aðrir í mótmælunum, hafi verið misnotaður. Sú tilfinning eykst verulega við lestur þessarar bókar. Og að maður hafi tekið þátt í þessu á meðan ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók allar mikilvægustu ákvarðanirnar sem björguðu landinu eykur á skömmustutilfinningu manns.
Það var líka fallega kaldhæðið að eftir að ofbeldisbylgjan fleytti VG í ríkisstjórn skuli sú vinstristjórn hafa sett á laggirnar fyrstu pólitísku réttarhöld Íslandssögunnar, einmitt gegn fyrrnefndum Geir H. Haarde.
Og nú er Ísland komið á rannsóknarbekk með Úkraínu hjá Evrópuráðinu enda pólitísk réttarhöld hluti af hryllingsfortíð Evrópu en ekki hluti af samtíma þeirra.
Búsáhaldabyltingin – sjálfsprottin eða skipulögð fæst í Bóksölu Andríkis fyrir kr. 2.590. Heimsending innanlands er innifalin í verðinu.