Vefþjóðviljinn 177. tbl. 17. árg.
Hvað á þessi kynjahlutfalls-reikningur að standa lengi? Hvenær hefur einhver döngun í sér til að svara þessu fólki fullum hálsi?
Alþingi þurfti á dögunum að velja þrjá fulltrúa til að sitja á sumarþingi Evrópuráðsins. Varla þarf að fara mörgum orðum um gríðarlegt mikilvægi þeirrar fundasetu og hversu veigamiklu hlutverki íslensku fulltrúarnir munu þar gegna. Þeir munu að sjálfsögðu bera hitann og þungann af öllum umræðum, kveða upp úr um allar niðurstöður og engu máli verður ráðið til lykta án þess að þeir séu þar í lykilhlutverki.
En þrátt fyrir þetta, þá mistókst Alþingi að velja. Að vísu valdi þingið þrjá þingmenn, en það gleymdi að gæta að réttum kynjahlutföllum. Enginn af þessum þremur er Kona.
Það er ferlegt. Það er, eins og Oddný Harðardóttir segir, „skammarlegt klúður“. Þetta er alger skömm. Íslendingar geta hvergi látið sjá sig í hinum siðmenntaða heimi framvegis. Enginn þriggja fulltrúa Alþingis á sumarþingi Evrópuráðsins er kona.
Það verður bara að velja konu á þetta þing fyrir hönd Alþingis. Það er eina krafan sem er gerð. Það er engin skylda að fulltrúarnir hafi neitt sérstakt til brunns að bera, hvorki stjórnmálareynslu, aðra reynslu, menntun, málakunnáttu, búsetu né neitt annað. Bara þetta eina. Það verður að vera kona í hópnum. Konur, konur, konur.
Og að sjálfsögðu tók þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins undir þetta. Hún sagði að þetta val væri þingmönnum til vansa.
Enginn útskýrir hvers vegna einn af þessum þremur verður að vera kona. Eða yrði að vera karl ef hinir tveir fulltrúarnir væru konur. Enginn útskýrir hvers vegna hlutföll kynja skipta svona miklu máli, en engin önnur hlutföll gera það. Enginn heimtar að feitir, sköllóttir, haltir, kennarar, sjómenn, vinstrimenn, hægrimenn, skoðanalausir, örvhentir, hlauparar, myrkfælnir, lagvissir eða hávaxnir eigi fulltrúa í öllum nefndum. En hvenær sem nefnd er skipuð þá hlaupa fréttamenn og fleiri meinlokumenn til og byrja að telja.
Telja konur.