Vefþjóðviljinn 170. tbl. 17. árg.
Í dag var þess minnst innan og utan Ríkisútvarpsins að 98 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt.
Aldrei er haldið upp á það að fátækir hafi fengið kosningarétt. Eða ungt fólk. Bara konur.
Það þarf að ræða stöðu kvenna alveg samfellt. Aftur og aftur. Og vera alltaf að mæla. Hvert er hlutfall kvenna hér? Hvert þar? Fyrir örfáum árum var því fagnað opinberlega að einungis konur sátu í forsætisnefnd Alþingis. Fyrir fáum dögum sló Ríkisútvarpið því hins vegar upp að það væri lögbrot að hlutfall kvenna í nefndum þingsins væri 39% en ekki 40%.
Ríkisútvarpið fékk sem álitsgjafa á þessu síðarnefnda Kristínu Ástgeirsdóttur, sem er forstjóri ríkisstofnunar sem öll snýst um þessa hugmyndafræði. Kristín taldi þetta hlutfall kvenna vera lögbrot. Áður en hún varð forstjóri Jafnréttisstofu þá var hún þingmaður Samtaka um kvennalista. Þar var körlum bannaður aðgangur. Þeir höfðu hlutfallið 0%.
En aldrei fylgir sögunni þegar andstuttir fréttamenn Ríkisútvarpsins þylja hlutfallstölurnar, hvaða máli hlutfallið skiptir. Hvaða máli skiptir það hversu margar konur sitja í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis? Skiptir ekki meira máli hversu margir hægrimenn sitja þar, hversu margir vinstrimenn og hversu margir ópólitískir samræðustjórnmálamenn? Af hverju þurfa Konur sérstakan fulltrúa? Hvað, sem máli skiptir í þingstörfum, á Katrín Jakobsdóttir sameiginlegt með Vigdísi Hauksdóttur en ekki Steingrími J. Sigfússyni?
Svo lengi sem aðgangsskilyrði eru hin sömu skiptir engu máli hvert kynjahlutfall er í nefndum eða störfum. Nema auðvitað það komi í ljós að einhver hafi gert ráðstafanir til að breyta hlutfallinu og reynt að fækka öðru kyninu. Slíkar aðgerðir eru óeðlilegar og eiga auðvitað ekki að líðast hjá hinu opinbera.
Stjórnmálamenn verða að fara að andæfa sértrúarsöfnuðunum og mótmæla kröftuglega kynferðisteljurunum. Kröfum um tiltekið hlutfall „af hvoru kyni“ á opinberum vettvangi, sem eru um leið kröfur um að einstaklingar verði metnir eftir kynferði, verður að mæta af festu. En fæstir núverandi stjórnmálamanna þora slíku. Þeir þora sjaldan að berjast gegn pólitískum rétttrúnaði víðsjár-þjóðfélagsins.