Mánudagur 17. júní 2013

Vefþjóðviljinn 168. tbl. 17. árg.

Í dag er þjóðhátíðardeginum fagnað um allt land. Það er enn gert á fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar þó auðvitað sé óvíst hversu lengi sá siður verður látinn í friði. Í ár bar hátíðisdaginn upp á mánudag svo sjálfsagt eru hagræðingarmenn rólegir þetta árið, en á næsta ári verður hátíðin á þriðjudegi og það er tómt vesen. 

Öðru hverju heyrist í mönnum sem endilega vilja „endurskoða helgidagana“. Sumir helgidagar eru nefnilega á fimmtudegi og það finnst hagræðingarmönnum alveg óskaplega vitlaust. Miklu skynsamlegra sé að færa þá „að helgi“, svo menn fái þriggja daga helgi. 

Á Íslandi hefur verið haldið upp á sumardaginn fyrsta á fimmtudegi. Sama má segja um uppstigningardag. Báðar þessar hátíðir hafa verið á fimmtudegi í meira en níu undruð ár og mjög líklega lengur. En auðvitað skiptir það engu máli, við hliðina á því að fá þriggja daga helgi. Hvað með það þó að menn læri það síðar, að þúsund ára sið hafi verið breytt svo kynslóðin sem var á hátindi sínum á fyrri hluta tuttugustu og fyrstu aldar gæti verið lengur uppi í sumarbústað?

En frídagar eru kannski ekki stórmál og eiga ekki að koma með fyrirskipunum fremur en margt annað. En sum önnur mál eru það. Dagurinn í dag er til dæmis ágætur til að minna á að fullveldi landsins snýst ekki um útreikninga. Með aðild að Evrópusambandinu yrði stórum hluta af fullveldi landsins afsalað til erlendra ráðamanna. Slíkt kemur ekki til greina, hvaða tímabundnu undanþágur sem menn telja sig geta fengið á afmörkuðum sviðum í „samningaviðræðunum“, eða hversu háa „byggðastyrki“. Hversu vel sem finnskir bændur kunna að hafa komist á spenann í Brussel, þá kemur aðild að Evrópusambandinu aldrei til greina í huga þeirra sem vilja frjálst og fullvalda Ísland. Vefþjóðviljinn er ekki í vafa um að ef aðild að Evrópusambandinu væri einungis reikningsdæmi, þá yrði niðurstaðan sú að Íslandi vegnaði betur utan þess. En þetta er ekki einu sinni reikningsdæmi. Þetta er grundvallaratriði af allt öðrum toga.

Gleðilega þjóðhátíð.