Vefþjóðviljinn 163. tbl. 17. árg.
Það ætti auðvitað ekki að vera fagnaðarefni heldur sjálfsagt að ný stjórnvöld stigi hænuskref í rétta átt. En ástandið er þannig að jafnvel örlítið skref er ástæða til fagnaðar. Þannig var ánægjulegt að heyra að nýr menntamálaráðherra hefði frumkvæði að því að lögum verði breytt þannig að stjórn Ríkisútvarpsins verði kosin á alþingi en ekki valin af ótrúlega hæfum ókosnum vinstrimönnum úti í bæ.
En breytingin er aðeins örlítið skref og tæplega það. Eingöngu er verið að fara aftur til baka til þess fyrirkomulags sem var við lýði fyrir fjórum mánuðum. Það er ekki verið að snúa til baka með hinar vanhugsuðu og illa heppnuðu breytingar sem gerðar voru á útvarpslögum nokkrum árum fyrr, og höfðu í raun í för með sér að þessi opinbera stofnun var gefin starfsfólkinu þó kostnaðurinn yrði enn greiddur af skattgreiðendum.
Auðvitað þarf að breyta þeim lögum til baka. Ríkisútvarpið var ekki gott fyrir þá breytingu og það var vinstrislagsíða á því þá líka, en ástandið versnaði enn við lagabreytinguna. Eftir að stjórnendur og aðrir starfsmenn sannfærðust um að þeir mættu fara með Ríkisútvarpið eins og þeir ættu það, þá hefur fjölmargt orðið enn verra en áður var í Efstaleiti. Það er mikilvægt að ný stjórnvöld hefji þegar skjóta endurskoðun útvarpslaga, því þótt fáir geri sér vonir um að ríkið hætti útvarps- og sjónvarpsrekstri á næstu árum, þá má margt gera til að stofnunin verði nær því að gæta hlutleysis í starfi sínu en hún hefur verið undanfarin ár.
Einnig verður að taka á fjáraustri stofnunarinnar. Lækka verður skattheimtu í hennar þágu og létta þannig undir með skattgreiðendum. Það hlýtur að vera hægt að reka sómasamlega útvarps- og sjónvarpsstöð fyrir minna fé.