Þriðjudagur 11. júní 2013

Vefþjóðviljinn 162. tbl. 17. árg.

Það hefur lengi verið stefna Sjálfstæðisflokksins að einfalda skattkerfið og fækka sköttum og skattþrepum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu hins vegar sérstakan nýjan gistináttaskatt árið 2011. Skatturinn var og er föst krónutala á hverja nótt. Sumsé nýr og sértækur skattur.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins mölduðu hins vegar í móinn þegar vinstri stjórnin ætlaði að leggja sama virðisaukaskatt á gistingu og er á flestu öðru hér á landi eða 25,5%. Vinstri stjórnin bakkaði þá með skattinn niður í 14%. Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að lækka hann niður í 7% en almenna þrepið verður sem fyrr 25,5%.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar ályktaði hins vegar að lækka bæri almennan virðisaukaskatt „sem jafnframt verði aðeins í einu þrepi.“ 

Og í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir um skattkerfið að lagðar verði fram:

tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum. 

Með einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata verður rekstur fyrirtækja einfaldari og skilvirkari.

En nú klifar fjármálaráðherrann á því að afnema eigi virðisaukaskatt á barnafötum.

Það er ekki líklegt að menn nái þeim markmiðum að einfalda skattkerfið og breikka skattstofna ef fyrstu ráðstafanir kjörtímabilsins ganga í öfuga átt. Eftir því sem undanþágum fjölgar verður erfiðara að fá stuðning við að afnema þær, einfalda kerfið og sameina allt í eitt þrep sem gæti verið verulega lægra en almenna þrepið er nú en skilað ríkissjóði sömu tekjum.