Vefþjóðviljinn 161. tbl. 17. árg.
Það vantar sjaldan frasana úr ræðustól alþingis. Og enn síður eftir að „ný kynslóð“ er komin þar til áhrifa. Einn frasinn er að auka þurfi „samráð“ í stjórnmálum, einkum milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
Auðvitað er skiljanlegt að mönnum detti í hug að auka þurfi slíkt samráð að lokinni valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún samdi aldrei um neitt við stjórnarandstöðuna annað en algera uppgjöf hennar í hverju málinu á fætur öðru. Á síðustu fjórum árum náði stjórnarandstaðan litlum árangri, nema helst stjórnarskrármálinu í lok kjörtímabilsins. Annars var alltaf samið, eftir stutta baráttu, og án þess að stjórnarandstaðan fengi neitt í sinn hlut. En vinstrimenn verða bráðum búnir að sannfæra sig um að stjórnarandstaðan hafi verið afar óbilgjörn og sé það skýringin á árangursleysi og óvinsældum vinstristjórnarinnar.
En stjórnarandstaðan náði litlum árangri, stöðvaði aldrei neitt sem máli skipti og studdi jafnvel nýja skatta stjórnarinnar á borð við sérstakan gistináttaskatt. Það voru teknar örfáar tarnir með langri umræðu en þeim var svarað með næturfundum, svo raunveruleg dagskrá riðlaðist lítið. Og í lokin var samið um að „ljúka umræðunni“ án þess að stjórnarandstaðan fengi neitt í sinn hlut og virtust helstu samningamenn hennar yfirleitt ánægðir með árangursleysið.
En hvers vegna eiga stjórn og stjórnarandstaða eiginlega að „vinna saman“. Er það ekki „faglegt“?
Þeir sem halda það, misskilja margt. Stjórnarandstaða hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Hún er fulltrúi þeirra sem ekki kusu meirihlutann. Hún er fulltrúi þeirra sem eru ósáttir við þá leið sem meirihlutinn kýs að fara og henni ber að halda fram þeim sjónarmiðum. Stjórnarandstaða á ekki að sitja á samráðsfundum með ráðherrum til að ná sameiginlegri niðurstöðu sem enginn talar svo gegn á þingfundum svo þeir, sem andvígir eru niðurstöðunni, fá enga rödd.
Ekkert er að því að hafa samráð sem felst í því að miðla upplýsingum. Oft má eflaust eyða misskilningi um raunverulegt efni frumvarpa með slíkum hætti, og til þess eru meðal annars nefndarfundir. En stjórnarandstaða má ekki gleyma þeirri skyldu sinni að vera stjórnarandstaðan. Hún er það ekki fyrir sjálfa sig heldur fyrir þann stóra minnihluta landsmanna sem kaus ekki stjórnvöld á hverjum tíma. Og hún er það fyrir þann hluta landsmanna sem er andvígur þeirri leið sem stjórnvöld á hverjum tíma kjósa að fara.
Með þessu er ekki sagt að stjórnarandstaða eigi að geta stöðvað öll mál þannig að ekkert náist fram. Auðvitað verður meirihluti yfirleitt að fá sitt fram. Meirihlutinn á að berjast af hörku fyrir sínum málum, enda er hann fulltrúi meirihluta kjósenda. Báðir aðilar verða einfaldlega að muna að þeir eru ekki „samstarfsmenn“ á „vinnustað“. Þeir eru þingmenn á löggjafarþingi, fulltrúar þúsunda manna. Bæði stjórn og stjórnarandstaða eiga að minnast þess í störfum sínum. Hvorugur aðilinn má taka upp „víðtækt samráð“, sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að forða kjörnum fulltrúa frá því að gera skyldu sína. Ef menn vildu ekki sinna þeirri skyldu, hvort sem væri í stjórn eða stjórnarandstöðu, þá áttu þeir ekki að bjóða sig fram til þings.
Svo dæmi sé tekið, þá má spyrja hvers vegna Samfylkingin segist ætla að „greiða götu“ tillagna stjórnarflokkanna í „skuldamálum heimilanna“. Fyrir kosningar taldi Samfylkingin hugmyndir flokkanna óframkvæmanlegar. Hvað hefur breyst? Hvers vegna heldur Samfylkingin ekki fram sömu sjónarmiðum og berst gegn tillögunum sem óframkvæmanlegum? Er staða ríkissjóðs miklu betri en Samfylkingin hélt fyrir örfáum vikum?