Vefþjóðviljinn 153. tbl. 17. árg.
Á síðustu dögum hafa tveir Íslendingar gert sér ferð á tind Everest. Öðrum þeirra nægði ekki hefðbundið púl við það heldur fór fyrstur Íslendinga upp þá hlið sem þykir enn erfiðari en hinar. Um svipað leyti var þess minnst að sextíu ár voru liðin frá því fyrsti maðurinn komst á þennan tind. Síðan hefur mikill fjöldi manna fetað í gaddaförin og margir fleiri hafa reynt en orðið frá að hverfa. Fjölmargir hafa látið lífið við tilraunir sínar. Jarðneskar leifar þeirra munu víða blasa við á leiðinni, öðrum fjallgöngumönnum til umhugsunar.
Það er sérstakt til þess að hugsa að ef að Íslendingarnir sem komust á tindinn vilja, þegar þeir koma heim til Íslands, halda upp á afrekið með því að fá sér veglegan skammt af sænsku neftóbaki í báðar nasir, þá rekast þeir á vegg. Slíkt þykir vera of mikil áhætta fyrir líf og heilsu hvers manns. Þess vegna er slík vara bönnuð á Íslandi. Ef þeir ætla að hjóla út í búð, til að kaupa sér það íslenska neftóbak sem þó má enn kaupa, þá er lögð þung áhersla á að þeir verði með hjálm. Það er að vísu ekki enn orðið glæpur að hjóla hjálmlaus en það er eflaust stutt í það. Það er langt síðan öryggisbelti í bílum urðu skylda og refsivert að nota þau ekki. Varla nokkur maður andmælir því og þeir sem gera það með einhverjum almennum einstaklingsfrelsisrökum eru álitnir rugludallar.
Það er eiginlega furðulegt að ekki sé reynt að banna mönnum að ganga á Everest. Að vísu má segja að íslenski löggjafinn eigi þar erfitt um vik, því fjallið er utan lögsögunnar, en það væri hægt að banna mönnum að undirbúa slíka ferð eða styrkja væntanlega fjallgöngumenn. En það er ekki alltaf útreiknanlegt hvað þeir stjórnlyndu banna og hvað ekki. Mönnum var áratugum saman bannað að stunda hnefaleika. En þeir máttu synda Drangeyjarsund. Menn mega húðflúra sig til lífstíðar og þannig láta sprauta einhverjum litarefnum inn undir húðina, en þeir mega ekki taka sænskt neftóbak í nefið. Ætli skýringin geti nokkuð verið að ótrúlega margir láta húðflúra sig en neftóbaksmenn eru fáir og sennilega litlir hávaðamenn?
En hvers vegna er verið að velta þessu fyrir sér? Varla vill Vefþjóðviljinn að fjallgöngur og húðflúr verði bönnuð, til að gæta samræmis við munntóbakið? Nei auðvitað ekki. Það á að auka frelsi einstaklingsins til að taka ákvarðanir um eigið líf, ekki minnka það. En þróunin hefur þar verið hröð í ranga átt á Vesturlöndum undanfarna áratugi. Á fleiri og fleiri sviðum eru ráðin tekin af fólki. Og fólk venst þessu og tekur að treysta því að opinberar reglur segi því hvað sé í lagi og hvað ekki. Fari eitthvað úrskeiðis þá er það svo regluleysi og eftirlitsleysi að kenna. Ekki fólki sjálfu.
Auðvitað getur verið að slíkar reglur forði fólki frá einhverjum neikvæðum afleiðingum gjörða sinna. En þær hafa þá einnig af því jákvæðu afleiðingarnar. En enn meira máli skiptir að allar þessar reglur deyfa smám saman tilfinninguna fyrir því að vera frjáls maður sem tekur sjálfur ákvarðanir um eigið líf. Hvort sem ákvarðanirnar snúast um að borða frekar feitt kjöt en iðjagrænt kál, smjör en ekki ólífuolíu, hjóla án hjálms en ekki með hjálm, reykja alltaf vindil eftir matinn, taka bankalán með áhættusömum skilmálum, hætta í læknisfræðinni og byrja keyra sendibíl – eða öfugt – , segja upp á endurskoðunarstofunni og byrja að dansa einkadans á klúbbi í Hafnarfirði eða hlusta jafnvel á Víðsjá, þá eru þetta allt ákvarðanir sem hver og einn á að fá að taka fyrir sig. Það að taka eigin ákvarðanir og bera sjálfur ábyrgð á eigin velferð eru mikilvægir þættir í tilveru frjáls manns. Menn eiga ekki að venjast því að hið opinbera eigi að hugsa fyrir þá.
Allar þessar reglur, margar settar af góðum hug þeirra sem telja sig vita betur en hver og einn einstaklingur hvað honum er fyrir bestu, deyfa frelsistilfinninguna. Þær minnka einstaklinginn en stækka þegninn. Einstakingurinn, sem sjálfur tekur ábyrgð á eigin málum, minnkar. Þegninn, sem treystir því að eftirlitsmaður ríkisins sé búinn að fara yfir þetta allt saman, stækkar.
Heilbrigt og gott mannlíf þarf meiri einstaklinga og minni þegna.