Vefþjóðviljinn 147. tbl. 17. árg.
Stjórnarskipti voru í landinu í síðustu viku. Milli þess sem gamla stjórnin fékk lausn og sú nýja tók við brá forseti Íslands sér á ráðstefnu og flutti þar erindi. Meðal þess sem hann sagði þar, var að vinstristjórnin hefði þó afrekað það að koma á friði í landinu.
Vissulega höfðu verið óeirðir, eignaspjöll og ofbeldi fyrir opnum tjöldum vikurnar áður en vinstristjórnin komst til valda. En um leið og ljóst varð að Sjálfstæðisflokkurinn hrektist úr ríkisstjórn en Vinstrigrænir tækju við, hurfu óeirðaseggirnir eins og dögg fyrir sólu.
Ráðherrar vinstristjórnarinnar þurftu ekki að taka á neinum óeirðum og ófriði þegar þeir settust í ráðherrastólana á Bessastöðum 1. febrúar 2009. Um leið og Sjálfstæðisflokkurinn, langstærsti flokkur landsins, hafði verið hrakinn úr ríkisstjórn voru engar óeirðir lengur. Af einhverjum ástæðum voru óeirðamenn, sem vikurnar á undan höfðu reynt að brjótast inn í lögreglustöðina til að frelsa fanga, ráðist inn í þinghúsið, brotið rúður í opinberum byggingum og svo framvegis, orðnir alveg rólegir þegar valdaskiptin fóru fram.
Allir áhugamenn um íslenskt þjóðfélag ættu að kynna sér með opnum huga bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings um þetta stutta tímabil stjórnmálasögunnar. Þá munu þeir rekast á lýsingu sem er í senn sláandi, fróðleg og sanngjörn, ólíkt því sem margir gáfu sér fyrirfram, þegar bókin kom út. Bók Stefáns Gunnars, „Búsáhaldabyltingin“, fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar aðeins 2.590 krónur og er heimsending innanlands innifalin.
Þegar menn lesa bókina geta þeir svo haft í huga hrós Ólafs Ragnars Grímssonar til vinstristjórnarinnar fyrir að hafa komið á friði í landinu.